Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn í tengslum við mannslát í austurborg Reykjavíkur um kvöldmatarleytið, sem talið er að hafi borið að með saknæmum hætti.
Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Margeir vildi ekki svara því hvort maðurinn hefði verið handtekinn á vettvangi.
Lögreglu barst tilkynning um málið rétt fyrir klukkan 19:30, en það var karlmaður á fimmtugsaldri sem fannst látinn.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að mannslátið sé til rannsóknar og að lögregla muni ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.