„Langsótt“ að Uber og Lyft séu velkomin

Með nýja leigubílafrumvarpinu er innleitt flókið leyfiskerfi að mati Samkeppniseftirlitsins. …
Með nýja leigubílafrumvarpinu er innleitt flókið leyfiskerfi að mati Samkeppniseftirlitsins. Langsótt er að farveitur geti starfað undir þessum skilyrðum. AFP

Langsótt er að nýtt frumvarp um leigubifreiðar bjóði Uber og Lyft velkomin hingað til lands, að mati Guðmundar Hauks Guðmundssonar, verkefnastjóra hjá Samkeppniseftirlitinu. Leyfum var nýlega fjölgað um hundrað en nokkur flótti var úr stéttinni í faraldrinum. 

Fyrirtæki munu ekki getað opnað sínar leigubílastöðvar nái frumvarpið fram að ganga en einungis er gert ráð fyrir leyfum fyrir einstaklinga og einu leyfi á hvern bíl.

„Það eru einungis einstaklingar sem geta fengið leyfi. Þetta er eitthvað sem við höfum bent á áður. Þá er ekki, praktískt séð, hægt að stofna leigubílastöð, fá bíla og fá starfsfólk sem uppfyllir öll skilyrðin,“ segir Guðmundur en þetta er í þriðja skiptið sem óskað er eftir umsögn Samkeppniseftirlitsins. 

Frumvarpið feli þannig í sér flókið og kostnaðarsamt leyfiskerfi sem er að líkindum ekki nógu sveigjanlegt til að koma til móts við nýsköpun framtíðarinnar.

Ekki farið að tillögum OECD

Íslensk stjórnvöld gerðu árið 2019 samning við OECD um framkvæmd á sjálfstæðu samkeppnismati á því regluverki á sviðum byggingastarfsemi og ferðaþjónustu. Var sérstaklega óskað eftir að OECD tæki til skoðunar regluverk er varðar leigubifreiðar þar sem athugasemdir voru gerðar við takmörk á leyfisveitingum. OECD skilaði tillögum til úrbóta í nóvember 2020 og voru helstu tillögur eftirfarandi:

1. Afnema námskröfur sem gerðar eru til handhafa leigubílaleyfa sem ekki varða öryggi farþega, ökumanna eða almennings. Þannig er unnt að draga úr umfangi náms og lækka kostnað.

2. Heimila útgáfu leigubílaleyfa til fyrirtækja og gera þeim kleift að hafa á hendi fleiri en eitt leigubílaleyfa.

3. Tryggja þarf að gildandi löggjöf um leigubifreiðar hindri ekki nýsköpun á markaðinum.

Ekki virðist hafa verið horft til samkeppnismats OECD við gerð frumvarpsins en þar eru tilmæli um að heimila lögaðilum að öðlast leigubílaleyfi, að mati Samkeppniseftirlitsins.

ESB segir erfitt að rökstyðja takmarkanir

En hvað ef fólk sækir sér réttindin og starfar síðan á farveitum? Munu farveitur geta starfað undir þessu regluverki?

„Leyfiskerfið sem er sett á með frumvarpinu er mjög flókið og kostnaðarsamt. Það gæti aðeins dregið úr fyrirtækjum að koma inn á markaðinn. Það eru svona atriði sem við setjum athugasemdir við og það er mörgum álitamálum enn þá ósvarað í frumvarpinu.“

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýsti nýverið yfir að erfitt sé að rökstyðja takmarkanir að þeim toga að einungis einstaklingar en ekki lögaðilar geti fengið atvinnu- og rekstrarleyfi eða bæði. Kom þetta fram í orðsendingu ESB um regluverk leigubifreiða, þar sem vikið er að þeirri þróun sem hefur átt sér stað í atvinnugeiranum á undanförnum árum. 

Margt bætt en líklegt að ESA áminni Ísland áfram

Guðmundur segir að margar úrbætur felist í frumvarpinu og Samkeppniseftirlitið fagni því. Þó er á sama tíma mat stofnunarinnar að unnt sé að ganga enn lengra, enda þurfi regluverkið að taka mið af hagsmunum og þörfum þeirra sem bjóða þjónustuna og þeirra sem nýta hana. 

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur þá oftar en einu sinni áminnt Ísland vegna leigubifreiðalöggjafarinnar sem nú er í gildi en Guðmundur telur líklegt að ESA muni halda því áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert