Sá grunaði leiddur fyrir dóm í dag

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að þessu húsi við Barðavog …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að þessu húsi við Barðavog í gærkvöldi. mbl.is/Sólrún

Karlmaðurinn á þrítugsaldri sem var handtekinn í gær vegna gruns um að hafa valdið mannsláti með saknæmum hætti verður leiddur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. Þar verður tekin ákvörðun um það hvort hann verður úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild. 

Lögreglu barst tilkynning klukkan hálfátta í gærkvöldi um að karlmaður á fimmtugsaldri hafi látist í austurbæ Reykjavíkur. Stuttu seinna var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn grunaður um að hafa valdið láti mannsins með barsmíðum. Aðspurður vildi Margeir ekki tjá sig um hvers konar barefli hafi verið notað í grunaðri árás og ítrekar að málið sé í rannsókn. 

Lögreglan mun leiða þann grunaða fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag …
Lögreglan mun leiða þann grunaða fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag þar sem tekin verður ákvörðun um það hvort hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. mbl.is/Árni Sæberg

Heimildir RÚV herma að maðurinn sem var handtekinn sé fæddur árið 2001 en Margeir gat ekki staðfest það en tók fram að hann væri á þrítugsaldri.

Margeir segir að búast megi búast við að það verði gerð krafa um gæsluvarðhald á hendur þess grunaða. Spurður um hversu löngu gæsluvarðhaldi verður sóst eftir kveðst hann ekki vita það en nefnir að maðurinn verður væntanlega leiddur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur seinna í dag.

Þá segir hann næsta skref í rannsókninni vera skýrslutökur af þeim grunaða og hugsanlegum vitnum sem voru í grennd við atburðinn, sem átti sér stað í Barðavogi, í gærkvöldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka