Atburðir sem þessir geta vakið óhug margra

Vettvangur ætlaðs glæps í Barðavogi. Nokkrir nágrannar mannsins hafa nú …
Vettvangur ætlaðs glæps í Barðavogi. Nokkrir nágrannar mannsins hafa nú fengið áfallahjálp. mbl.is/Óttar

Nokkrir nágrannar mannsins sem lést í Barðavogi um helgina hafa fengið áfallahjálp frá Rauða krossinum. Talið er að karlmaður sem fæddur er árið 2001 hafi banað manninum en hann situr nú í gæsluvarðhaldi. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins segir að atburðir sem þessir geti „auðvitað vakið óhug margra“ og bendir hún fólki á Hjálparsímann 1717 og netspjallið á 1717.is ef það vill leita sér aðstoðar.

„Það voru nokkrir einstaklingar sem fengu að tala við fólkið okkar,“ segir Brynhildur.

Stundum þarf fólk meiri aðstoð

Hún segir að áfallahjálp byggist í grunninn á samræðum um það sem gerðist og hjálpar slíkt fólki mjög oft.

„Þetta er í rauninni bara samtal. Við erum með teymi í þessu sem hefur lært sálrænan stuðning. Áfallahjálp er í raun að tala um atburðinn, vita við hverju maður á að búast – sérstaklega ef maður hefur orðið vitni að erfiðum atburðum; vita hvernig er eðlilegt að líða eftir það og hvað er út fyrir einhver mörk,“ segir Brynhildur.

„Þegar maður verður vitni að einhverjum hræðilegum atburði líður manni illa. Það er eðlilegt. Ef það ástand varir mjög lengi þá eru ákveðnir hlutir sem fólk ætti kannski að líta eftir og leita sér faglegrar aðstoðar í kjölfarið. Í sumum tilvikum er alveg nóg að tala við einhvern í smá stund og þannig kemst fólk betur yfir áfallið. Í öðrum tilvikum þarf meiri faglega aðstoð.“

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is var maður­inn sem lést fædd­ur árið 1975 en karl­maður, fædd­ur árið 2001, er grunaður um að hafa orðið mann­in­um að bana. Rann­sókn máls­ins stend­ur yfir og miðar henni vel að sögn yfirlögregluþjóns. Ekki er útlit fyrir að grunaði maðurinn verði nafngreindur af lögreglu. 

Eins og fram kom í frétt mbl.is í morgun standa dyr Laug­ar­nes­kirkju opn­ar fyr­ir fólk sem vill leita sér áfalla­hjálp­ar vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert