Dyr Laugarneskirkju standa opnar fyrir fólk sem vill leita sér áfallahjálpar vegna manndráps sem talið er hafa verið framið í Barðavogi á laugardagskvöld. Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, segir aðspurður eðlilegt ef fólki á svæðinu er brugðið vegna atburðarins.
„Við veitum hana um leið og eftir henni verður óskað,“ segir Davíð í samtali við mbl.is, spurður um það hvort áfallahjálp sé veitt í kirkjunni.
„Við mætum ekki á staðinn og bjóðum áfallahjálp óumbeðin en ef til okkar er leitað þá eru okkar dyr opnar og við myndum setja það í forgang og rýma til í annarri dagskrá til þess að veita [áfallahjálp] en frumkvæðið að því verður að koma frá þeim sem óska eftir þjónustunni.“
Eru það þá frekar einstaklingar en lögreglan?
„Lögregla getur haft milligöngu. Það gerist oft að lögregla hringir í prest ef voveiflegur atburður hefur orðið, til dæmis andlát, og lögregla hefur lokið störfum á vettvangi en metur það sem svo að það sé óábyrgt að skilja fólk eftir í því ástandi sem það er þá gerist það mjög oft að hringt er í prest og prestur er beðinn um að koma og taka við,“ segir Davíð og bætir við:
„Þessi ósk getur komið hvort sem er frá lögreglu, og þá með samþykki hlutaðeigandi, eða beinlínis frá fólkinu sjálfu – þá yfirleitt ekki strax í kjölfarið á atburðinum heldur daginn eftir eða tveimur dögum eftir þegar það áttar sig á því að lífsreynslan situr í því og það þarf hjálp til að vinna úr henni.“
Samkvæmt heimildum mbl.is er maðurinn sem lést fæddur árið 1975 en karlmaður, fæddur árið 2001, er grunaður um að hafa orðið manninum að bana. Rannsókn málsins stendur yfir en eins og fram hefur komið var lögregla um helgina í tvígang kölluð á staðinn vegna líkamsárása fyrir manndrápið. Hvorugur mannanna lagði fram kæru í þeim tilvikum og því gat lögregla lítið aðhafst.
Svonalagað getur væntanlega verið erfitt fyrir fólk sem býr í hverfinu jafnvel þó að það hafi ekki orðið vitni að atburðinum beinlínis?
„Algjörlega, að vita af svona í næstu götu – það er eðlilegt að það komi fólki í uppnám,“ segir Davið Þór.