Útilokað að standa öðruvísi að málum

Barðavogur.
Barðavogur. mbl.is/Sólrún

Lög­regla hefði ekki getað gert neitt öðru­vísi í aðdrag­anda mann­dráps í Barðavogi á laug­ar­dags­kvöld. Hún var tví­veg­is kölluð til á staðinn sól­ar­hring­inn fyr­ir mann­drápið en að sögn yf­ir­lög­regluþjóns var í hvor­ugt skiptið til­efni til hand­töku.

Ásgeir Þór Ásgeirs­son yf­ir­lög­regluþjónn seg­ir í sam­tali við mbl.is að lög­regla hafi fyrst verið kölluð að hús­inu í Barðavogi á föstu­deg­in­um eft­ir að hafa fengið sím­tal frá tveim­ur mönn­um. Þeir sögðu báðir að ann­ar hefði ráðist á hinn.

Lög­regla hafi brugðist við því en Ásgeir lýs­ir því sem minni­hátt­ar lík­ams­árás þar sem var ró á vett­vangi. Báðum var leiðbeint um kæru­ferlið, næstu skref, þ.e. að fara á slysa­deild, fá lækn­is­skoðun og panta tíma í kæru­mót­töku.

„Svo það sé al­veg á hreinu þá er hvor­ug­ur þess­ara aðila sá látni en ann­ar þeirra sá sem er í haldi,“ seg­ir Ásgeir.

Óskað eft­ir nær­veru lög­reglu nokkr­um klukku­stund­um fyr­ir mann­drápið

Hann seg­ir að um fjór­um eða fimm klukku­stund­um áður en lög­regla var kölluð að Barðavogi vegna mann­dráps hafi ann­ar aðil­inn frá föstu­deg­in­um óskað eft­ir nær­veru lög­reglu.

Viðkom­andi hafi ætlað að sækja hluti í húsið en vegna ágrein­ings dag­inn áður seg­ir Ásgeir að hann hafi óskað þess að lög­regla væri á staðnum og tryggði ör­yggi með nær­veru sinni. Ekk­ert brot hafi átt sér stað á þess­um tíma.

Ásgeir seg­ir úti­lokað að lög­regla hefði getað staðið öðru­vísi að mál­um til að koma í veg fyr­ir mann­drápið. Jafn­vel þó menn­irn­ir hefðu verið hand­tekn­ir á föstu­deg­in­um vegna rann­sókn­ar á ágrein­ingi og minni hátt­ar lík­ams­árás, sem hefði verið um­fram meðal­hóf þá hefði verið tek­in af þeim skýrsla og þeir gengið út sam­dæg­urs. Dag­inn eft­ir er aðstoð lög­reglu var óskað hafi ekk­ert brot átt sér stað og þess vegna aldrei í mynd­inni að fara í hand­töku.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert