Lögregla hefði ekki getað gert neitt öðruvísi í aðdraganda manndráps í Barðavogi á laugardagskvöld. Hún var tvívegis kölluð til á staðinn sólarhringinn fyrir manndrápið en að sögn yfirlögregluþjóns var í hvorugt skiptið tilefni til handtöku.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að lögregla hafi fyrst verið kölluð að húsinu í Barðavogi á föstudeginum eftir að hafa fengið símtal frá tveimur mönnum. Þeir sögðu báðir að annar hefði ráðist á hinn.
Lögregla hafi brugðist við því en Ásgeir lýsir því sem minniháttar líkamsárás þar sem var ró á vettvangi. Báðum var leiðbeint um kæruferlið, næstu skref, þ.e. að fara á slysadeild, fá læknisskoðun og panta tíma í kærumóttöku.
„Svo það sé alveg á hreinu þá er hvorugur þessara aðila sá látni en annar þeirra sá sem er í haldi,“ segir Ásgeir.
Hann segir að um fjórum eða fimm klukkustundum áður en lögregla var kölluð að Barðavogi vegna manndráps hafi annar aðilinn frá föstudeginum óskað eftir nærveru lögreglu.
Viðkomandi hafi ætlað að sækja hluti í húsið en vegna ágreinings daginn áður segir Ásgeir að hann hafi óskað þess að lögregla væri á staðnum og tryggði öryggi með nærveru sinni. Ekkert brot hafi átt sér stað á þessum tíma.
Ásgeir segir útilokað að lögregla hefði getað staðið öðruvísi að málum til að koma í veg fyrir manndrápið. Jafnvel þó mennirnir hefðu verið handteknir á föstudeginum vegna rannsóknar á ágreiningi og minni háttar líkamsárás, sem hefði verið umfram meðalhóf þá hefði verið tekin af þeim skýrsla og þeir gengið út samdægurs. Daginn eftir er aðstoð lögreglu var óskað hafi ekkert brot átt sér stað og þess vegna aldrei í myndinni að fara í handtöku.