Vantar úrræði fyrir menn sem eru „tímasprengjur“

Morðið sem hefur verið mikið fjallað um í fréttum undanfarið …
Morðið sem hefur verið mikið fjallað um í fréttum undanfarið gerðist í þessu húsi í Barðavogi. mbl.is/Sólrún

Manndrápið í Barðavogi verður að vera víti til varnaðar fyrir lögreglu og félagsleg yfirvöld. Þetta segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur í samtali við mbl.is.

Spurður hvort lögreglan hefði getað tekið til einhverra ráðstafanna áður en að manndrápið átti sér stað segir Helgi að sá sem grunaður er um verknaðinn hafi líklegast ekki gert neitt sem myndi teljast nægilega alvarlegt til að lögregla hefði getað haft afskipti af honum með afgerandi hætti. 

Eins og mbl.is hefur greint frá lést maður síðustu helgi eftir barsmíðar í Barðavogi. Maðurinn sem lést var 45 ára en maður sem fæddur er árið 2001 er grunaður um að hafa orðið honum að bana. Lögregla var tvívegis kölluð á staðinn sólarhring fyrir manndrápið vegna líkamsárása en hinn látni hafði ekkert með þau útköll að gera, einungis hinn grunaði.

„Maður veltir samt fyrir sér hvort að aðrar stofnanir og önnur úrræði í landinu eins og félagsleg- eða heilbrigðisúrræði hefðu getað stigið inn í með beinni hætti þar sem að sá grunaði virðist eiga við einhvern vanda að stríða eða einhverskonar raskanir,“ bætir Helgi við.

Bendir Helgi þá á að maðurinn sem grunaður er um manndrápið hafi verið í fréttum áður vegna athæfi síns og að nágrannar hafi kvartað undan honum ítrekað. DV greindi til dæmis frá því að sá grunaði hafi áður komist í fréttir fyrir að hafa verið sakaður um dýraníð. 

Fleiri einstaklingar sem kerfið er ekki að grípa

Þá veltir Helgi því fyrir sér hvort að það séu til fleiri dæmi um einstaklinga sem standa höllum fæti andlega eða félagslega sem að kerfið veit af og vantar úrræði frá hinu opinbera. 

Bendir Helgi þá á að líklegast hafi sá grunaði í Barðavogs málinu lengi verið nafn á blaði hjá lögreglu og hafi örugglega komið áður við sögu hjá félags- og heilbrigðisyfirvöldum. „Þegar svona gerist veltir maður því fyrir sér hvort það séu fleiri þarna úti í svipaðri stöðu,“ segir Helgi og vísar þá til einstaklinga sem að kerfið veit að séu óstöðugir. 

„Þeir eru í rauninni bara eins og tímasprengjur,“ segir Helgi og nefnir að við þetta tilfelli hafi greinilega eitthvað komið upp hjá þeim grunaða sem olli því að hann missti alla stjórn á sér. 

Helgi Gunnlaugsson.
Helgi Gunnlaugsson. mbl.is

Endurspeglar úrræðaleysi kerfisins

Spurður hvort að þetta mál sé ekki ástæða til varúðar fyrir lögregluna og önnur yfirvöld svarar Helgi því játandi. „Þá kemur einmitt þessi spurning; hvort það séu fleiri þarna úti sem kerfið veit af og veit að séu óstöðugir en er ekki gripið til aðgerða fyrir með afgerandi hætti,“ bætir Helgi við. 

Segir Helgi mikilvægt að þetta veki samfélagið til umhugsunar um einstaklinga sem eru hættulegir umhverfi sínu. „Þetta er skelfilegt og endurspeglar ákveðið úrræðaleysi kerfisins í málum af þessum toga,“ ítrekar Helgi.

Segir Helgi að það þurfi að vera meiri afskipti og inngrip varðandi einstaklinga í svipaðri stöðu og þá sérstaklega í kjölfarið þess að mál eins og þetta komi upp. Vísar Helgi þá til þess að gott væri að vera með aðgerðarplan með víðara net sem grípi svona einstaklinga.

Álitamál hvort sá grunaði sé sakhæfur

Segir Helgi það vera áhugavert að sjá hvort að einstaklingurinn sem er grunaður um verknaðinn geti talist ábyrgur gjörða sinna eða hvort hann verði metinn sem ósakhæfur. Segir Helgi að einstaklingurinn verði væntanlega sýknaður ef svo verði metið að hann sé of andlega veikur til að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

„Ef hann verður dæmdur sakhæfur þá er hann eflaust alveg á mörkunum,“ tekur Helgi fram og veltir því fyrir sér hvort að fangelsisvistun sé besta úrræðið fyrir mann sem er líklega andlega veikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert