Misskilningur að betrun fari fram í fangelsum

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags Fanga.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags Fanga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í fangelsum á Íslandi er að finna fanga sem glíma við verulega þroskaskerðingu, framheilaskaða, andleg veikindi og tvígreinignar að sögn Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu, félags fanga. 

„Þetta skapar álag í fangelsum, bæði á fangaverði, samfanga og þá sem glíma við raskanirnar en fá ekki fullnægjandi meðferð.“

Einn mesti misskilningur sem við búum við, að mati Guðmundar, er að það eigi sér stað endurhæfing eða betrun í fangelsum. 

Almenningsálitið hafi áhrif á dómara

Í gegnum tíðina hafa ósakhæfir menn ítrekað verið dæmdir í fangelsi, að sögn Guðmundar. „Þá hafa dómarar ekki farið eftir geðmati lækna, heldur látið almenningsálitið hafa áhrif á sig.“

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur, ræddi við mbl.is um manndrápið í Barðavogi, sem hann taldi víti til varnaðar fyrir yfirvöld. Áhugavert verði að sjá hvort hinn grunaði geti talist ábyrgur gjörða sinna eða hvort hann verði metinn ósakhæfur sökum andlegra kvilla. 

„Ef hann verður dæmd­ur sak­hæf­ur þá er hann ef­laust al­veg á mörk­un­um,“ tek­ur Helgi fram og velt­ir því fyr­ir sér hvort að fang­elsis­vist­un sé besta úrræðið fyr­ir mann sem er lík­lega and­lega veik­ur.

Skorti úrræði fyrir veikasta hópinn

Guðmundur deildi fréttinni og tók undir orð Helga, hann bætti við að það skorti úrræði fyrir veikasta hópinn. 

Veikir einstaklingar fengju betri aðstoð á réttargeðdeild en í dag séu menn ýmist sakhæfir eða ósakhæfir og það skortir úrræði fyrir þá sem falla þar á milli, eða reynast „of erfiðir“ fyrir réttargeðdeild.

„Geðdeildum finnast einstaklingarnir of erfiðir og þá virðist fangelsið vera eina lausnin. Menn fá ekki þá aðstoð í fangelsum sem þeir þurfa til að lagast. Þessari heitu kartöflu er kastað í fangið á fangavörðum sem eru ekki menntaðir til að takast á við þessa einstaklinga,“ segir hann einnig í samtali við mbl.is.

Markmiðið að fækka brotaþolum

Tvígreining kallast það þegar einstaklingur glímir bæði við andleg veikindi og fíkniefnavanda. Þetta er hópur sem Guðmundur telur verulega vanræktan í íslensku samfélagi. Þeir fái ekki inn á geðdeildum vegna neyslunnar og svo séu þeir metnir of veikir andlega til þess að njóta meðferðarúrræða. 

„Þetta er bara staðreynd, það er veikt fólk á götunni sem eru tifandi tímasprengjur. Það er engin eftirfylgni með neinum sem losnar úr úrræðum í refsivörslukerfinu. Þeir koma koma beint úr fangelsi og enda í neyðarskýlum og vita ekki hvað þeir eiga að gera. Þeir eru í harðri vímuefnaneyslu og leita svo aftur í afbrot til þess að reyna að útvega næsta skammt.“

Þetta sé vítahringur sem geti ekki annað en endað illa fyrir bæði hlutaðeigandi aðila og samfélagið. 

„Aðalmarkmiðið hlýtur að vera að koma í veg fyrir fleiri brotaþola, en þá þurfum við að hætta að setja plástra á vandamálin og líta á þau heildstætt með framtíðarsýn. Það mun kosta en það mun skila sér.“

Líkur á tvígreiningu eftir fangelsi

Maðurinn sem liggur undir grun í Barðavogsmálinu hefur ekki verið orðaður við neyslu fíkniefna, en hann er talinn eiga við veruleg geðræn vandamál að stríða. 

„Fangelsi gerir hann bara veikari, það er ekki að fara að hjálpa honum. Ef hann er ekki með tvígreiningu núna þá eru yfirgnæfandi líkur á að hann verði með það eftir fangelsisvistunina.“

Guðmundur segist hafa séð fjölmörg dæmi um slík örlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert