„Við erum bara nice-gæjar; þetta er bara Play-Nice“

Vél Niceair hljóp inn í skarðið fyrir flugvél Play í …
Vél Niceair hljóp inn í skarðið fyrir flugvél Play í fyrradag fyrir flug til Gautaborgar. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, segir í samtali við mbl.is að það hafi verið mjög eðlilegt að Play hafi leitað til flugfélagsins þegar þá vantaði vél fyrir flug sitt til Gautaborgar og að samstarfið hafi gengið mjög vel.

Eins og greint hefur verið frá, þurfti flugfélagið Play að aflýsa flugi sínu til Gautaborgar í Svíþjóð tuttugu mínútum fyrir brottför í fyrradag. Farþegarnir, sem áttu bókaða ferð með flugfélaginu, fengu þá boð stuttu seinna um að þeim byðist að fara seinna um daginn með flugvél frá öðru flugfélagi til Svíþjóðar. Mbl.is greindi frá því í gær að farþegarnir hefðu farið með flugvél Niceair.

Þorvaldur staðfesti í dag að Play hefði ekki þurft á meiri hjálp frá Niceair að halda enn sem komið er. „Það er ekkert í pípunum frekar með Play,“ segir Þorvaldur.

Svona lán á flugvélum á milli flugfélaga séu ósköp venjuleg. Þorvaldur segir þetta vera það minnsta sem Niceair geti gert til að hjálpa öðru flugfélagi. „Það er bara ósköp eðlilegt þegar menn eru í vandræðum að þeir leiti sér hjálpar.“ 

Aðspurður segir Þorvaldur að flugfélögin hafi ekkert rætt sín á milli hvort þessi aðstoð Niceair verði kveikjan að frekara samstarfi. „Menn leita bara til þeirra sem þeir halda að geti hjálpað þeim og við erum náttúrulega bara nice-gæjar, þetta er Play-Nice,“ segir Þorvaldur í lokin kíminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert