Mun berjast við hreyfihömlun alla ævi

Hoppukastalinn Skrímslið á Akureyri.
Hoppukastalinn Skrímslið á Akureyri. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Hin sjö ára gamla Klara sem slasaðist í hoppukastalaslysinu á Akureyri í fyrra mun þurfa að berjast alla ævi við hreyfihömlun og málerfiðleika. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu stuðningshópsins Áfram Klara.

Í dag er eitt ár liðið síðan slysið átti sér stað á Akureyri, þar sem hoppukastalinn skrímslið fauk upp í loft nokkra metra frá jörðu með 108 börn innanborðs. Tíu börn slösuðust og þar á meðal Klara, sem er búin að standa sig eins og hetja í endurhæfingu að því er fram kemur á síðunni á Facebook. 

Tekst á við lífið með gleði að vopni

Í færslunni þar segir að Klara nái framförum á hverjum degi, en um leið tilkynnt að hún muni þurfa að glíma við afleiðingar slyssins út lífið. 

Það er þó komið í ljós að Klara mun þurfa að berjast ævina út við einhverja hreyfihömlun og málerfiðleika.

Segir í færslunni að þrátt fyrir þetta takist hún á við lífið með æðruleysi og gleði að vopni.

Syst­urn­ar Ásthild­ur og Auðbjörg Björns­dæt­ur stofnuðu áheita- og styrkt­arsíðuna Áfram Klara á Face­book þar sem hóp­ur ætt­ingja, vina og kunn­ingja styðja við fjöl­skyldu Klöru. Móðir Klöru tók þátt í Landvættinum á þessu ári ásamt átján öðrum til að safna áheitum og styrkjum fyrir bata Klöru. Landvættur er æfingaverkefni sem stendur í rúma níu mánuði þar sem þáttakendur ljúka fjórum mismunandi þrautum.

Á Akureyri ári eftir slysið

Á morgun fer fram þraut númer þrjú í Landvættinum sem kallast Þorvaldsdalsskokkið. Þorvaldsdalur er við vestanverðan Eyjafjörð og er því fjölskyldan á Akureyri núna ári eftir að slysið átti sér stað. 

Það er því táknræn og tilfinningarík tilviljun að þraut nr. 3, Þorvaldsdalsskokkið, fulltrúi Norðurlands í Landvættaþrautunum, fer einmitt fram um helgina, eða á lau. 2.júlí. Það þýðir að Áfram Klara-liðið verður allt statt fyrir norðan á þessum tímamótum,“ stendur í Facebook færslunni.

Jafnframt minna þau á í færslunni að enn er hægt að styrkja Klöru. „Við tökum glöð við allri hvatningu, peppum og áheitum fyrir komandi helgi. Áheitin renna beint til litlu hetjunnar okkar sem verður okkur sérstaklega ofarlega í huga um helgina.

Áhugasamir geta styrkt Klöru á styrktarreikning hennar:
Kennitala: 081114-2500
Bankanúmer: 0123-15-043225

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka