Flestum rannsóknaraðgerðum er lokið er snýr að meintu manndrápi í Barðavogi og er fyrst og fremst beðið eftir gögnum, meðal annars er snúa að sakhæfi hins grunaða.
Þetta staðfestir Eiríkur Valberg hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út eftir tíu daga, þann 29. júlí en líklegt er að óskað verði eftir framlengingu á því, ef rannsókninni verður ólokið. Miðað er við að rannsóknir af þessu tagi taki allt að tólf vikur en rúmar sex vikur eru frá atburðinum.
„Það er svolítið eftir, en það er flestum rannsóknaraðgerðum lokið. Við erum fyrst og fremst að bíða eftir gögnum. Það er bara spurning hversu löng sú bið verður,“ segir Eiríkur.
Og þar á meðal eru gögn um sakhæfi hins grunaða?
„Meðal annars, já.“