Traðkaði margsinnis á höfði fórnarlambsins

Magnús réðst fyrst á manninn á stigagangi heimilis þeirra.
Magnús réðst fyrst á manninn á stigagangi heimilis þeirra. mbl.is/Sólrún

Magnús Aron Magnússon, sem varð manni að bana í Barðavogi í Reykjavík í júní, réðst fyrst á manninn inni á stigagangi heimilis þeirra beggja og síðan fyrir utan húsið, að því fram kemur í ákæru yfir honum og mbl.is hefur undir höndum. Magnús er ákærður fyrir manndráp.

Fyrir utan húsið sparkaði og kýldi Magnús manninn ítrekað og náði honum niður á jörðina. Hélt hann áfram að kýla og sparka í hann þar sem hann lá á jörðinni, traðkaði margsinnis á höfði hans, andliti og brjóstkassa, með þeim afleiðingum að hann hlaut meðal annars útbreitt heilamar, innkýlt brot í fremri kúpugróf, fjölbrot á neðri kjálka, kinnbeinum, nefbeinum og tungubeini og mjúkvefjablæðingar.

Samkvæmt ákærunni lést maðurinn af völdum höfuðáverkans og áverka á andliti sem torveldaði öndun.

Ættingjar mannsins; systkini hans, faðir og börn krefjast miskabóta upp á þrjár milljónir króna hvert. Jafnframt er krafist bóta fyrir hönd ólögráða barna hans vegna missis framfæranda. Annars vegar rúmra þriggja milljóna króna og hins vegar rúmra sjö milljóna króna. Þá er þess krafist að Magnús greiði útfararkostnað og málskostnað.

Magnús tók afstöðu til ákærunnar þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Hann andmælti verknaðarlýsingunni og kröfum systkina hins látna um bætur. Hann féllst hins vegar á bótakröfu barna hans og föður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka