Magnús Aron Magnússon, sem er ákærður fyrir að myrða mann í Barðavogi í Reykjavík í júní, bar fyrir sig neyðarvörn sem hugsanlega fór út fyrir mörk leyfilegrar neyðarvarnar í skýrslutöku hjá lögreglu.
Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði frá lok júlí sem Landsréttur staðfesti í byrjun ágúst en hann var nýlega birtur á vef dómstólsins.
Í úrskurðinum kemur einnig fram að geðlæknir hafi lagt mat á geðheilbrigði Magnúsar og telst hann sakhæfur samkvæmt geðrannsókn. Þá geti ekkert komið í veg fyrir að refsing geti borið árangur.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu bar Magnús Aron fyrir sig að nágranni hans hafi komið til sín og viljað ræða við sig. Þá hafi Magnús talið hann vera ógnandi og að hann hafi ætlað að ryðjast eða brjótast inn í íbúðina. Í kjölfarið hafi komið til átaka.
Magnús sagði mikið hafa gengið á og að nágranninn hafi haft yfirhöndina og ítrekað slegið Magnús í andlitið. Loks hafi átökin borist út á lóðina og kveðst Magnús þá hafa náð yfirhöndinni og yfirbugað nágrannann. Magnús hafi slegið hann margoft í andlitið og loks ítrekað sparkað í höfuð hans. Loks hafi hann hætt og hringt í lögregluna.
Þá kemur fram í úrskurðinum að ekki verði ráðið af rannsóknargögnum að um neyðarvörn hafi verið að ræða.
Segir einnig að málið hafi átt vissan undanfara en að íbúar hússins hafi í tvígang orðið varir við ofbeldisfullt framferði af hálfu Magnúsar og í annað skiptið hafi hann veitt nágranna hnefahögg.
Kemur þá fram að hann eigi sögu hjá lögreglu vegna ofbeldisfullrar hegðunar og að hann hafi hlotið dóm fyrir líksárásás og barnaverndarbrot. Þá er hann að mati lögreglu talinn „afar hættulegur“.
Í úrskurðinum er því, með vísan til alvarleika og eðlis brots, fallist á að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt. Þá stríði það gegn réttarvitund almennings ef maður sem er undir sterkum grun um að hafa framið árás sem mannsbani hlýst af gangi laus á meðan málið er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum dómstólum.