Framsókn missir mesta fylgið

Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem hefur misst mest fylgi á milli mánaða en samkvæmt könnun Maskínu missir flokkurinn fjögur prósentustig á milli kannana.

Í ágúst sögðu 19,6% svarenda Maskínu að þeir myndu kjósa Framsókn ef kosið yrði til Alþingis nú en í september sögðust aðeins 15,6% myndu kjósa flokkinn.

Þá eru Vinstri græn eini ríkistjórnarflokkurinn sem að bætir við sig fylgi en flokkurinn bætti við sig rúmlega einu prósentustigi í september og mælist nú með 8,7% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fór úr 20,9% niður í 20,8%.

Mesta aukningin hjá Samfylkingunni

Flokkurinn sem bætir mestu við sig er Samfylkingin en hann hefur hækkað um 2,3 prósentustig milli mánaða og um 5,3 prósentustig síðan kosningar fóru fram síðasta haust. Hann mælist nú með 15,2% fylgi.

Viðreisn bætir einnig við sig töluverðu fylgi eða 1,5 prósentustigi, Flokkur fólksins bætir við sig 0,4 prósentustigi og Miðflokkurinn bætir við sig 0,8 prósentustigi. Sósíalistar missa aftur á móti 1,5 prósentustig og Píratar missa 0,4 prósentustig.

Könnun Maskínu fór fram dagana 16. til 27. september 2022 og voru 1.875 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert