Íslenska lífeyriskerfið er í fyrsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu Mercer-CFA stofnunarinnar, annað árið í röð. Einkunn Íslands hækkar á milli ára, einnig Hollands sem er í öðru sæti en Danmörk er áfram í þriðja sæti með óbreytta einkunn á milli ára. Þessi þrjú ríki eru þau einu sem komst í A-flokk við einkunnargjöfina sem þýðir að í þessum löndum er fyrsta flokks lífeyriskerfi með góðum lífeyri, sjálfbærni og sem nýtur trausts.
Einkunn Íslands er 84,7 sem er 0,5 stigum hærra en fyrir árið 2021. Holland er með einkunnina 84,6 og Danmörk fær 82 í einkunn. Til að komast í A-flokk þarf að ná 80 í einkunn. Ísrael og Finnland eru í næsta flokki á eftir, B+, með 75-80 í einkunn.
Ísland tók í fyrsta sinn þátt í mælingunni á síðasta ári. Í ár tóku 44 lönd þátt í samanburðinum, úr öllum heimsálfum. Við matið er litið til þriggja grunnþátta, nægjanleika kerfis, sjálfbærni og trausts. Ísland var með hæstu einkunn í tveimur fyrrnefndu þáttunum og í heildarmati allra þátta.
Fjallað verður um lífeyriskerfi þriggja efstu landanna, Íslands, Hollands og Danmerkur, á ráðstefnu sem Landssamband lífeyrissjóða efnir til næstkomandi fimmtudag.