Kaflaskil í kvikmyndagerð hér

Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá True North, á skrifstofu sinni …
Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá True North, á skrifstofu sinni þar sem sjá má minnisvarða um fyrri afrek við gerð stórra bíómynda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta nýjasta verkefni er það lengsta og umfangsmesta,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá TrueNorth, en tökur eru nú að hefjast á stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi.

Um er að ræða fjórðu þáttaröð sjónvarpsþáttanna True Detective sem HBO framleiðir. Leifur og hans fólk sér um framleiðsluna hér á landi en tökur munu standa yfir fram á vor og búast má við að heildarkostnaður við verkefnið hér á landi verði um tíu milljarðar króna. „Þetta eru kaflaskil í kvikmyndagerð á Íslandi,“ segir Leifur

Hann segir að hækkun endurgreiðslunnar í 35% hafi verið lykilatriði til að byggja upp kvikmyndaiðnað hér á landi og fá hingað verkefni sem þetta.

„Ég hef alltaf sagt að við gætum bætt einu núlli við allar upphæðir ef við tækjum þetta skref. Um leið og þú ert farinn að mynda í kvikmyndaverum í stað bara útitaka stækkar umfangið svo rosalega hratt. Þarna erum við að fá inn erlenda fjárfestingu og við notum þessa erlendu fjárfestingu til að byggja innviði kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi,“ segir hann og kveðst hafa verið ósáttur við þá umræðu sem fór af stað þegar fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt og í ljós kom að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands voru skert frá fyrra ári.

„Því miður voru skornir niður styrkir til kvikmyndagerðarmanna en það er ekki rétt að blanda því saman við endurgreiðsluna. Það er algert bull og vitleysa að við séum að taka frá iðnaðinum.“

Mikil arðsemi er af því fé sem kemur inn með verkefni sem þessu að sögn Leifs. Þannig geti tíu milljarðar orðið að 40 þegar þeir hafa mjatlað um hagkerfið um 6-9 mánaða skeið, bæði í gegnum skatt af launum starfsfólks og af hagnaði birgja. Þriðjungur af kostnaði við verkefni sem þetta renni til ferðaþjónustutengdra fyrirtækja hér. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert