Fjórar handtökur og húsleitir vegna árásarinnar

Alvarleg árás var á Bankastræti Club í gær.
Alvarleg árás var á Bankastræti Club í gær. mbl.is/Ari

Rannsókn á líkamsárás á Bankastræti Club í gær beinist m.a. að því hvort hún tengist uppgjöri eða hefndaraðgerðum, en á þessu stigi er of snemmt að fullyrða um slíkt.

Um mjög alvarlega árás er að ræða og vopnaðist lögregla vegna aðgerðanna í gærkvöldi og nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu. 

Karlmennirnir þrír sem fluttir voru á slysadeild seint í gærkvöld eru í kringum tvítugt og eru allir með stungusár.

Lögregla fékk tilkynning um málið klukkan 23.33 og hélt strax á vettvang. Fjórir hafa nú verið handteknir.

Árásarmennirnir með grímu

Í tilkynningu frá lögreglu segir að hópur manna hafi ráðist inn á skemmtistaðinn og að þremenningunum sem voru þar staddir í herbergi. Árásarmennirnir voru dökkklæddir og með grímur en þeir yfirgáfu skemmtistaðinn um leið og árásin var yfirstaðin. Talið er að þeir hafi verið inni á staðnum í mjög skamman tíma.

Leit að mönnunum hófst strax eftir að lögreglan kom á vettvang en tugir lögreglumanna hafa komið að rannsókn málsins frá því í gærkvöld og nótt. Hafa verið framkvæmdar allnokkrar húsleitir í þágu hennar.

Rannsókn málsins er nú í forgangi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðað við málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert