Hvítar flygsur en ekki hnífar

Skjáskot úr eftirlitsmyndavél á staðnum kvöldið örlagaríka.
Skjáskot úr eftirlitsmyndavél á staðnum kvöldið örlagaríka.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir að vissulega sé það andstætt því sem lagt var upp með að Alexander Máni Björnsson hafi verið sýknaður af ásökunum í einni af þeim þremur stungurárásum sem hann var sakaður um í ákæru.

Hann var hins vegar sakfelldur fyrir tilraun til manndráps fyrir hinar tvær og fékk 6 ára dóm.  Hún tjáir sig ekki um það hvort málinu verði áfrýjað í ljósi sýknudómsins og bendir á að slík ákvörðun sé í höndum ríkissaksóknara.

„Ríkissaksóknari tekur þá ákvörðun með það. En allir þessir sem fengu dóm geta áfrýjað,“ segir Dagmar. 

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir til hægri á myndinni.
Dagmar Ösp Vésteinsdóttir til hægri á myndinni. mbl.is/Eyþór

Auk Alexanders voru 25 sakfelldir í málinu. Ýmist fyrir alvarlega líkamsárás eða hlutdeild í árásinni. Alexander Máni hafði játað þrjár stunguárásir en breytti afstöðu sinni í til sakargiftanna í tveimur tilfellum þegar réttarhöldin fóru fram.

Fyrsta árásin ekki sönnuð

Í dómnum segir að greinilega hafi sést að Alexander var með hníf í hendi áður en 10 sakborningar ruddust inn í rýmið þar sem fórnarlömbin þrjú voru fyrir á Bankastræti Club. 

Fyrsta fórnarlambið mætti Alexander og hinum 10 nærri dyragætt á sérrými á neðri hæð Bankastræti Club. Alexander var fimmti í röðinni þegar hópurinn gekk í skrokk á fórnarlömbunum þremur. 

Ekki þykir sannað fyrir dómi að Alexander Máni hafi veitt fyrsta fórnarlambinu hnífstungu. Þá þykja læknisskýrslur ekki styðja það að hann hafi ekki verið stunginn.

Árásin átti sér stað á Bankastræti club.
Árásin átti sér stað á Bankastræti club. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verjandi Alexanders Mána, Ómar R. Valdimarsson, reyndi ítrekað að sanna tilvist annarra hnífa í herberginu á meðan árásinni stóð. Meðal annars með því benda á hluti sem hann taldi hnífa sem féllu á gólfið á meðan árásinni stóð. Í dómi er því hafnað að um sé að ræða hnífa heldur óútskýrðar hvítar flygsur sem sjást á myndskeiðum úr öryggismyndavélum í Bankastræti Club.

Þá segir að Alexander Máni sjáist ekki beita hnífnum eða viðhafa áberandi handahreyfingu sem gefi til kynna að hann hafi beitt hnífnum gegn fyrsta fórnarlambinu.

Stakk hina ítrekað 

Hins vegar þykir sannað að hann stakk annað fórnarlambið í herberginu ítrekað. Mest í aftanvert lærið og síðuna. Alls hlaut fórnalambið sjö stungusár.

Varðandi þriðja fórnarlambið þá sést Alexander Máni veitast að honum með hnífnum. Var hann með stunguáverka á handlegg og stunguáverka á hægra læri sem olli slagæðarblæðingu samkvæmt vitnisburði æðarlæknis.

Er Alexander Máni dæmdur til sex ára fangelsisvistar fyrir tilraun til manndráps vegna þessara tveggja stunguárása.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert