123 milljónir í þóknun lögmanna

Sakborningar bera háan sakarkostnað.
Sakborningar bera háan sakarkostnað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarþóknun lögmanna í Bankastræti Club málinu hleypur nærri 123 milljónum króna samkvæmt útreikningi Héraðsdóms Reykjavíkur. Er því meðalmálskostnaður á hvern einstakling nærri 4,9 milljónum króna.

Allir sem ákærðir voru í málinu voru sakfelldir og sitja þeir því uppi með sakarkostnaðinn en 25 sakborningar voru í málinu. Ríkissjóður greiðir lögmönnum laun en ríkissjóður á aftur kröfu á sakborninga í málinu.

Hæstan sakarkostnað ber Alexander Máni Björnsson sem fékk 6 ára dóm. Er honum gert að greiða Ómari R. Valdimarssyni lögmanni sínum rúmar 7,8 milljónir króna vegna málsins.

Málskostnaður hinna 24 sakborninganna er frá 4,1 milljón króna til 5,9 milljóna króna.

Lögmönnum var gert að gera sundurliðað yfirlit yfir tímafjölda og var dómsins að meta tímafjölda hvers lögmanns.

Bankastrætismálið var flutt í Gullhömrum og stóð yfir í sjö …
Bankastrætismálið var flutt í Gullhömrum og stóð yfir í sjö daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sé tekið mið af reglum um málsvarnarlaun eða þóknun verjenda fékk hver lögmaður greiddar 24.300 krónur á hverja klukku­stund sem hann varði í málið.

Ef einungis er horft til þeirra sjö daga sem réttarhöldin tóku má gera ráð fyrir því að lögmenn hafi fengið 1.360.000 krónur fyrir setu í réttarhöldunum ef miðað er við 8 klukkustundir á dag.

Krafa gerð um nákvæma sundurliðun 

Í dómnum segir að lögmönnum hafi borið að senda inn tímaskýrslu til að innheimta þóknun sína.

„Tekið er fram að í þeim tilvikum sem skráning tímaskýrslu var ekki nema gróflega sundurliðuð voru málsvarnarlaun að hluta til áætluð,“ segir í dómnum.

Þá segir að Ómar R. Valdimarsson, verjandi Alexanders Mána, hafi lagt fram heildarvinnustundir upp á 594 fjórar stundir auk vinnu vegna gæsluvarðhalds ákærða sem var framlengd í tvígang.

Sé horft til þess metur lögmaðurinn sakarkostnað rúmar 13-14 milljónir króna, en samkvæmt ákvörðun héraðsdóms var hann 7,8 milljónir króna.

„Á yfirlitinu er að finna undirritun ákærða sem ætluð er sem staðfesting hans á samskiptum sem verjandinn hefur átt við hann eins og ritað hefur verið inn á skýrsluna. Þessi undirritun ákærða hefur enga þýðingu og leggur dómurinn einkum til grundvallar fyrrnefnd viðmið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert