Mennirnir sem ráðist var á í gær á Bankastræti Club særðust alvarlega í stunguárásinni en eru ekki taldir í lífshættu. Þetta segir Birgitta Líf Björnsdóttir, sem rekur skemmtistaðinn. Hún tjáði sig um árásina á Instagram.
Greint var frá því eftir miðnætti að þrír hefðu verið fluttir á slysadeild eftir stunguárás á Bankastræti Club. Viðbúnaður viðbragðsaðila var mikill á Bankastræti í nótt og voru sjúkrabílar og sérsveitin á svæðinu.
Birgitta Líf segir stóran hóp manna í miðbæ Reykjavíkur hafa verið að leita að ákveðnum einstaklingum sem þeir fundu inni á skemmtistaðnum og réðust á.
Í skilaboðunum sem hún birti á Instagram kveðst hún þakklát fyrir viðbrögð þeirra sem komu að atburðarásinni, starfsfólki, gestum, lögreglu og sjúkraflutningamönnum.
„Við hjá Bankastræti umberum ekki ofbeldi af neinu tagi og leggjum mikið upp úr öryggi gesta okkar og þjálfun starfsfólks.“