Munu skoða viðskiptasamband við dyravarðaþjónustuna

Frá skemmtistaðnum Auto.
Frá skemmtistaðnum Auto. mbl.is/Ari

Sindri Snær Jensson, einn af eigendum Auto, segir það ekki rétt að starfsmenn skemmtistaðarins hafi verið í hópi þeirra sem frömdu stunguárás á Bankastræti Club í gærkvöldi. 

Í kvöldfréttum Rúv kom fram að samkvæmt heimildum fréttastofunnar hafi það verið dyraverðir frá Auto sem voru á meðal þeirra sem stóðu að baki verknaðinum. 

„Við erum ekki með neina dyraverði í vinnu hjá okkur. Við kaupum dyravarðaþjónustu af fyrirtæki og það fyrirtæki sér um dyravörslu og öryggisgæslu hjá örugglega þrjátíu börum og skemmtistöðum í miðbænum. Þannig að ég get ekki séð hvernig þetta eru starfsmenn frá okkur – ef að þetta eru þeir sem eru viðriðnir [árásina]. Ef svo er þá þurfum við klárlega að skoða þetta viðskiptasamband,“ segir Sindri í samtali við mbl.is en hann hafði ekki heyrt um tenginguna fyrr en í kvöldfréttum Rúv.

Sindri Snær Jensson er meðeigandi Auto.
Sindri Snær Jensson er meðeigandi Auto. mbl.is/Árni Sæberg

Eru ekki alltaf með sömu dyraverðina

Spurður hvort að staðurinn hafi alltaf sömu dyraverði svarar Sindri neitandi.

Auto er lokaður á fimmtudögum svo ekki hefur enn gefist tækifæri til að ræða við neina dyraverði að sögn hans. 

„Ég veit ekki hvaða menn eða hópur á að hafa verið í þessum hræðilega atburði þarna í nótt.“ 

Munu þið hafa dyraverði frá fyrirtækinu að störfum um helgina?

„Já, en eins og ég segi þá var ég að frétta þetta fyrir korteri síðan þannig að ég veit ekki betur en að þeir séu allir að mæta til starfa. Það þarf bara að skoða þetta viðskiptasamband og þessa þjónustu ef að þetta er raunin,“ segir Sindri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka