Þarf lítið til að stungusár endi með dauða

Skammt er stórra högga á milli í vopnuðum átökum hópa. …
Skammt er stórra högga á milli í vopnuðum átökum hópa. Nú síðast á fimmtudag urðu þrír drengir fyrir árás á Bankastræti Club þar sem hópur grímuklæddra einstaklinga réðust að þeim og stungu með hnífum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held það sé mikilvægt að skoða hvort viðhorf ungs fólk á Íslandi til ofbeldis sé að breytast, og þá af hverju. Við þurfum líka að skoða hvers vegna það er svo mikið um  hópamyndanir og svokölluð gengi.“

Þetta segir Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Skammt er stórra högga á milli í vopnuðum átökum hópa. Nú síðast á fimmtudag urðu þrír drengir fyrir árás á Bankastræti Club þar sem hópur grímuklæddra einstaklinga réðust að þeim og stungu með hnífum. 

„Við þurfum að skoða hvað er að gerast og skoða rót vandans, sem er flóknari en að bregðast við með aukinni hörku í löggæslu. Við þurfum að gera rannsóknir.“

Breytt staða þolir enga feimni

Margrét bendir á að þeir sem beiti ofbeldinu séu oftar en ekki menn í kringum tvítugt. „Þetta er ungt fólk sem býr hér á landi. Þetta er ekki allt einhver skipulögð brotastarfsemi erlendra hópa.“

Gagnlegt væri að kanna hvort hér á landi séu íbúar sem upplifi sig ekki sem hluta af samfélaginu í heild. Íbúar sem verði fyrir fordómum og mismunun sem ýtir undir jaðarsetningu og ýtir þá undir að ungt fólk sem upplifi sig ekki tilheyra myndi hópa eða gengi. Í slíkum gengjum verði oft til jákvæð viðhorf gagnvart ofbeldi. 

„Ísland er orðið fjölmennara og fjölbreyttara en það hefur verið. Við megum ekki vera feimin við að skoða hvort og þá hvernig þessar breytingar tengjast breytingum á afbrotum.“

Margrét telur mikilvægt að skoðað sé hvernig ungu fólki, með erlendan bakgrunn, líði í íslensku samfélagi. Það þurfi að mæla líðan þess strax í grunnskólum. 

„Við þurfum að vera meðvituð um það að hér eru fordómar gagnvart fólki með erlendan bakgrunn sem birtist einna helst í því að fólk tengi innflytjendur við afbrot. Við megum samt ekki vera feimin við að skoða stöðuna eins og hún er.“

Efasemdir um að aukin harka sé lausnin

Sé litið til tölfræðigagna frá lögreglunni síðustu 20 ár sést að ofbeldisbrotum fækkaði á tímabili, en hefur svo farið ört fjölgandi síðastliðin fimm ár. Þó ekki séu fleiri ofbeldisbrot skráð nú, en fyrir 20 árum, er þróunin áhyggjuefni að mati Margrétar.

Útköll lögreglu vegna vopnaburðar hefur fjölgað verulega. Margrét telur ljóst að fjölga þurfi menntuðum lögreglumönnum á Íslandi og að sú ákvörðun sem tekin hefur verið um að lögregla beri rafbyssur, gæti verið skynsamleg og til þess fallin að auka öryggi lögreglunnar. Aftur á móti hefur hún efasemdir um að aukin harka í löggæslu eða réttarkerfinu sé til þess fallin að skila árangri í málum sem þessum. 

Það sé þekkt stef í afbrotafræði að þyngingar refsinga og endalaus stríð gegn glæpum auki frekar en að draga úr vandanum.

Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent við HA.
Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent við HA. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Þarf lítið til svo fórnarlambið deyi

„Í þessu tilfelli sem við höfum hér núna eru allir á lífi, en það þarf svo lítið til þess að svona stungusár endi með dauða fórnarlambsins.“

Margrét er nýkomin af vikulangri ráðstefnu í Atlanta á vegum bandaríska afbrotafræðiráðsins. Þar var til umræðu að víðast hvar í heiminum, eftir mörg ár fækkunar ofbeldisbrota, virðist vera að eiga sér stað aukning núna. 

„Það hafa komið fram vangaveltur um hvort þetta væri einhver áhrif frá heimsfaraldrinum eða hvort það hafi hreinlega verið slakað á í forvörnum. Svona hegðun byrjar yfirleitt mjög snemma. Það er í kringum 13 ára aldur sem þarf að grípa inn í.“ 

Neikvætt viðhorf til ofbeldis ekki sjálfsagt

Margrét fullyrðir að hægt sé að hafa áhrif á það hvaða viðhorf fólk hafi til ofbeldis. Það sé afar slæmt þegar ungu fólki þyki það eðlilegt að bregðast við ágreiningi með því að beita ofbeldi.

„Það þarf að fara í átak. Við höfum gert það áður á Íslandi. Þá vorum við að reyna að hafa áhrif á áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga, sem var mjög stórt vandamál um síðustu aldamót og það tókst. Nú þurfum við bara að fara í annað átak.“

Hún bendir á að það viðhorf til ofbeldis sé breytilegt. „Það er mismunandi hvort eðlilegt þyki að beita ofbeldi og ná fram hefndum, þegar einhver gerir eitthvað á þinn hlut, móðgar þig eða gerir eitthvað sem þér mislíkar. Þetta er mismunandi á mismunandi tímum og mismunandi svæðum. Það þarf að passa upp á þetta með félagsmótun og kennslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert