Tuttugu og sjö manns hafa stöðu sakbornings í stunguárás sem framin var á Bankastræti Club á fimmtudagskvöldið. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag var greint frá því að fjórtán handtöku hafi verið gerðar vegna málsins og var fjöldinn sá sami þegar mbl.is ræddi við Margeir, rétt í þessu.
Þannig eru þrettán manns enn leitað vegna málsins. Margeir segir að leitað sé víða og enn njóti rannsóknardeildin aðstoðar annarra lögregluembætta við leitina, um land allt.
Spurður hvort að hann telji rannsókn málsins ganga vel svarar Margeir að nú sé öll áhersla á að framkvæma haldtökur og koma þeim sem um eiga í hlut í varðhald.
Fimm af þeim sem hafa verið handtekin hefur verið sleppt en hafa þó enn stöðu sakbornings, og níu sitja í gæsluvarðhaldi.
Fjöldi þeirra sem réðust inn á Bankastræti Club á fimmtudagskvöldið hefur verið nokkuð á reiki umfjöllun um árásina. Margeir staðfestir að fjöldinn hafi verið hátt í tuttugu manns, að það hafi aðeins verið karlmenn og að ekki hafi allir þeirra borið hnífa við árásina.
Áður hefur verið greint frá því að á meðal hantekinna eru tvær konur.
Margeir vill ekki greina frá því hvort að lögreglan hafi vopn úr árásinni undir höndum. Hann staðfestir þó að lögreglan hafi lagt hald á farsíma við rannsóknina.