Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Búið er að handtaka tíu einstaklinga sem tóku þátt í stunguárásinni á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudagskvöld og ákveðið hefur verið að fara fram á gæsluvarðhald yfir fimm þeirra.
Þetta segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Spurður hvort einhverjir sem búið var að handtaka hafi verið látnir lausir svarar Margeir því neitandi. Þá segir hann ekki vitað hvort einhverjir hafi reynt að flýja land.
Fram hefur komið að hátt í þrjátíu manns eigi aðild að málinu. Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps.
Lögreglan reynir nú að hafa uppi á þeim sem ekki hafa fundist, sem eru um 20 manns.
„Við erum búin að vera í þessu máli síðan þetta kom upp,“ segir Margeir og bætir við að leitin í nótt hafi gengið ágætlega.
Spurður hvort árásin tengist Rauðagerðismálinu á einhvern hátt segir Margeir ekki vera vísbendingar sem bendi til þess, en fjórir voru dæmdir í fangelsi í því máli.
„En það er eitthvað sem ég hef komið inn á að það verður skoðað hver ástæða þessarar árásar er og það getur verið að það leiði til þess, en það er ekkert sem bendir til þess svo sem.“