Fjórir handteknir í nótt – þrettán í haldi

Alls eru þrettán í haldi lögreglu í tengslum við stunguárásina.
Alls eru þrettán í haldi lögreglu í tengslum við stunguárásina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir voru handteknir í nótt í tengslum við stunguárásina sem átti sér stað á Bankastræti Club á fimmtudagskvöld.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Alls eru þrettán í haldi lögreglu, en níu voru þegar í gæsluvarðhaldi og segir Margeir að ekki sé búið að taka ákvörðun um það hvort farið verði fram á varðhald yfir þeim fjórum sem handteknir voru í nótt.

Líkt og fram hefur komið hafa tuttugu og sjö manns stöðu sakbornings í málinu. Alls hafa 18 handtökur verið gerðar og er níu manns því enn leitað.

Reyna að átta sig á hlutverki hvers og eins

„Eins og staðan er núna erum við að leggja áherslu á að ná þessum aðilum og reyna að átta okkur á hlutverki hvers og eins, síðan verður það skoðað á síðari stigum hver aðdragandinn er og svo framvegis,“ segir Margeir.

Margeir segist ekki geta staðfest það hvort einhverjir sem eiga aðild að málinu séu farnir úr landi, en fréttastofa Rúv greindi frá því í gær að samkvæmt heimildum hefðu að minnsta kosti tveir hinna grunuðu flúið land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert