Hnífstunguárásum virðist vera að fjölga

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hnífstungur eru í eðli sínu alltaf lífshættulegar og það eru ekki góðar fréttir ef tíðni þeirra er að aukast,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Þrír drengir urðu fyrir hnífstunguárás á Bankastræti Club á fimmtudagskvöld þegar hópur grímuklæddra einstaklinga réðust að þeim.

„Við höfum ekki tekið saman nákvæmar tölur um það á Landspítalanum en það er tilfinning okkar að því miður hafi þessum tilvikum heldur verið að fjölga,“ segir Hjalti.

Flókin meðferð tekur við

Hann segir að þegar fórnarlömb slíkra árása koma á bráðamóttökuna fari að sjálfsögðu allt í gang.

„Eins og gefur að skilja eru hnífstungur alltaf lífshættulegar og því er alltaf í forgangi að bregðast við því. En það er erfitt að sinna því á yfirfullum spítala enda þarf fjölda starfsfólks og húsnæði til þess að bæði sinna þessu á bráðamóttöku og svo tekur oft við flókin meðferð á skurðstofum, gjörgæslu og svo á legudeildum í þessum tilvikum,“ greinir Hjalti Már frá.

Stemma þurfi stigu við fjölgun ofbeldismála

„Það er nú enn þá þannig að Ísland er almennt talið eitt friðsælasta land í heimi og ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að við reynum að halda í það en það þarf eitthvað að gera til þess að sporna við því hversu algengt það er að fólk sé að ganga með hnífa á sér og því miður beita þeim.

Ég held að við þurfum aðeins að skoða hvernig samfélagið okkar er rekið til þess að draga úr ofbeldi, sem þarf alltaf að gerast með samhæfum aðgerðum margra aðila.“

Bankastræti Club.
Bankastræti Club. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjalti bendir þó á að áverkar vegna hnífstunguárása séu, enn sem komið er, fremur sjaldgæfir miðað við það sem gengur og gerist í mörgum öðrum löndum í kringum okkur.

„Ísland er þrátt fyrir allt friðsælt og öruggt land en við þurfum að hafa auga með vægri fjölgun í tíðni sem virðist vera á bæði hnífstungum og öðrum ofbeldismálum, sem við þurfum sem samfélag að reyna að stemma stigu við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert