„Það er verið að „terroræsa“ fjölskyldur“

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hótanir ganga á milli stríðandi hópa sem aðild áttu að stunguárásinni á Bankastræti Club á fimmtudagskvöldið. 

„Við skynjum að svo sé, og að það sé verið að fylgja eftir þessum hótunum,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is. 

Bensínsprengju kastað á heimili

„Það hafa verið rúðubrot og það er verið að terroræsa fjölskyldur,“ segir hann og bætir við að bensínsprengju hafi verið kastað á heimili einstaklings sem tengist málinu. 

Margeir segir viðbrögð lögreglunnar nú felast í auknum viðbúnaði og að næstu skref séu í skoðun. „Það verður gripið til aðgerða,“ segir hann. 

Frá vettvangi á Bankastræti Club.
Frá vettvangi á Bankastræti Club. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann jánkar því að þolendur og gerendur í þessum ofbeldismálum sem fylgt hafa í kjölfar stunguárásarinnar séu hluti af öðrum hvorum hópnum sem þarna takast á. „Það er verið að hvetja til mikils ofbeldis og það virðist vera að ganga eftir.“

Hætta fyrir almenning

Margeir segir sérstaklega bagalegt að einstaklingar séu farnir að beita slíku ofbeldi að þeir ráði ekki hver niðurstaða þess gæti orðið og vísar til dæmis til bensínsprengjunnar sem kastað var í heimili. „Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk sem tengist þessu ekki neitt. Þá erum við komin út í svo miklu meira brot með mikilli hættu fyrir almenning.“

Spurður hvort að tilefni sé til að lýsa yfir einhvers konar hættustigi, segir Margeir ekki svo vera. 

Vísbendingar um að einhverjir hafi flúið land

Enn hefur ekki fengist staðfest að einhverjir þeirra sem enn er leitað hafi flúið land. Hann segir vísbendingar um að svo sé en vill ekki segja til um hversu margir það kunni að vera. 

„Síðan í gærkvöldi er í heildina búið að handtaka sex manns,“ segir Margeir spurður út í gang rannsóknar.

Þrjár konur handteknar

Þannig hafa tveir verið handteknir síðan um miðjan dag í dag og alls tuttugu í heildina vegna stunguárásarinnar í Bankastræti Club á fimmtudagskvöldið. Þar af eru þrjár konur.

Margeir segir að einn af þeim sem handteknir hafa verið síðan í gær gaf sig fram. Þá hafi einum af þeim handteknu verið sleppt þar sem viðkomandi var ekki talinn eiga hlut að málinu.  

„Við höfum tekið ákvörðun um að fara fram á gæsluvarðhald yfir allavega þremur úr þessum hópi,“ segir Margeir. Hann segir enn frekar að sjö til átta manns sé enn leitað vegna málsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert