Langvarandi deilur að baki árásinni

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, telur langvarandi deilur liggja að baki stunguárásinni í Bankastræti Club fyrir helgi.

Lögreglan handtók einn karlmann í nótt vegna árásarinnar og þar með hefur 21 verið handtekinn. Sex manns hefur verið sleppt lausum.

„Það eru 15 hjá okkur, 12 í gæslu og þrír sem á eftir að taka ákvörðun um með framhald,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni höfuðborgarsvæðinu.

Ekkert liggur fyrir um gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim sem eru í haldi lögreglunnar en ákvörðun um það verður tekin í dag, að sögn Margeirs.

Bankastræti Club.
Bankastræti Club. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn stendur yfir leit að sjö til átta manns. Umræða hefur verið um að einhverjir hafi flúið land. Margeir segir lögregluna ekki hafa náð að skoða það almennilega og því sé ekkert hægt að staðfesta um það.

Íslendingar að megninu til

Spurður segir hann jafnframt að þeir sem réðust inn í Bankastræti Club hafi að megninu til verið Íslendingar. Einnig segir hann lögregluna ekki hafa náð að skoða það sérstaklega hvort árásarmennirnir tengist undirheimunum.

Engar frekari árásir heldur en þær sem voru um helgina hafa verið gerðar á fjölskyldur þeirra sem tengjast árásinni, að sögn Margeirs, en í gær greindi hann frá því að bens­ín­sprengju hafi verið kastað á heim­ili ein­stak­lings sem teng­ist mál­inu.

Hótanir á samfélagsmiðlum

„Það hafa verið að ganga hótanir á milli manna á samfélagsmiðlum. Þarna virðast einhverjir vera að framkvæma það, eða láta verða af því sem hótað er. Það er eitthvað sem verður tekið sérstaklega á.“

Spurður út í ástæðuna að baki deilunum segir hann lögregluna vera að skoða það en telur að „langvarandi mál“ virðist hafa verið í gangi.

Hvað varðar fregnir um að dyraverðir hafi ráðist á fólk og hvort lögreglan hafi haft afskipti af dyravarðaþjónustu kveðst Margeir ekkert vilja tjá sig um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert