Gæsluvarðhaldsfangar aldrei fleiri

Fangaklefi á Hólmsheiði.
Fangaklefi á Hólmsheiði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um þre­falt fleiri sitja nú í gæslu­v­arðhaldi en al­mennt geng­ur og ger­ist. Þetta seg­ir Páll Eg­ill Win­kel, fang­els­is­mála­stjóri. Nú séu gæslu­v­arðhalds­fang­arn­ir 60 tals­ins en að jafnaði séu þeir um 20. Þetta er met­fjöldi hér á landi til þessa.

Hann seg­ir þenn­an mikla fjölda stafa af því að á síðustu vik­um hafi komið upp nokk­ur stór mál; fíkni­efna­mál, of­beld­is­mál og nú síðast árás­in sem átti sér stað á skemmti­staðnum Banka­stræti Club síðastliðinn fimmtu­dag. Hann seg­ir að fang­elsis­kerfið ætti í erfiðleik­um ef fleiri stór mál kæmu upp núna.

„Það er auðvitað gríðarlega mikið álag að vera með 15 ein­angr­un­ar­fanga. Þetta kall­ar á meiri mannafla og skipu­lögð vinnu­brögð. Því þarna þarf að tryggja rann­sókn­ar­hags­muni, að fang­arn­ir hitt­ist ekki en þó að rétt­inda þeirra til úti­vist­ar sé gætt. Þetta er býsna flókið en geng­ur upp,“ seg­ir Páll.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Win­kel fang­els­is­mála­stjóri. mbl.is/​​Hari

„Þetta er fólk á aldr­in­um 19 ára og upp úr, þetta eru Íslend­ing­ar og út­lend­ing­ar, kon­ur og karl­ar, fatlaðir og ófatlaðir, meðal ann­ars einn blind­ur ein­stak­ling­ur.“

Flest­ir fang­arn­ir eru vistaðir á Hólms­heiði en nokkra hef­ur þurft að flytja á Litla-Hraun. Páll seg­ir að hönn­un­in á hús­næðinu á Hólms­heiði hafi reynst vel í þessu ástandi, þar séu rými sem bæði megi nota í ein­angr­un og venju­lega afplán­un. Þá hrós­ar hann sam­starfs­fólki sínu sem hann seg­ir sann­ar­lega starf­inu vaxið.

Hann spá­ir því að ástandið vari í nokkra daga í viðbót en von­ast til að það verði ekki mikið leng­ur en það. „Þetta reyn­ir gríðarlega á kerfið. Þetta er á sama tíma og við erum að reyna að fækka tíma­bundið í fang­els­un­um til þess að geta unnið inn­an þeirra fjár­heim­ilda sem við eig­um að vinna eft­ir.“

Leitað fjög­urra til viðbót­ar

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu leit­ar fjög­urra sem tengj­ast Banka­stræt­is­mál­inu með ein­um eða öðrum hætti. Þá hafa sum­ir þeirra grunuðu flúið land en ekki enn hef­ur komið til þess að lög­regla leiti aðstoðar er­lendra lög­reglu­yf­ir­valda, að sögn Mar­geirs Sveins­son­ar, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjóns hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Mar­geir Sveins­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Staðfest­ir hann einnig að ein­hverj­ir þeirra grunuðu hafi starfað sem dyra­verðir. Innt­ur eft­ir þjóðerni þeirra sem hlut eiga að mál­inu kveðst hann ekki vilja tjá sig um það. „Það er nokkuð sem ég hef ekki viljað fara út í.“ Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra seg­ist í sam­tali við Morg­un­blaðið ekki hafa upp­lýs­ing­ar um það hvort þeir sem tald­ir eru hafa flúið land séu ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert