„Það hlustar enginn á okkur“

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ræðir við mbl.is …
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ræðir við mbl.is um fjölmennt líkamsárásarmál í Bankastræti á fimmtudag, líklega ein fjölmennustu átök frá Gúttóslagnum 1932 eða búsáhaldabyltingunni 2009. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru mestmegnis Íslendingar, hvort tveggja fórnarlömb og gerendur, eða þá fólk sem kom hingað til lands fyrir mörgum árum,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Umræðuefnið er atlaga, sem líklega er sú fjölmennasta hin síðari ár á Íslandi, að minnsta kosti frá búsáhaldabyltingu og Gúttóslagnum 1932, þegar fjöldi grímuklæddra manna sótti að þremur mönnum og stakk með eggvopnum á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudaginn.

Eru þá enn frekari átök boðuð um komandi helgi og hafa spádómar um þau gengið á samfélagsmiðlum þar sem meðal annars hefur verið boðað að 300 manns sæki miðbæinn í langferðabifreiðum með útprentuð þrívíddarvopn til að gera upp sakir sem ekki er fullljóst hverjar eru.

Einn erlendur flúinn

„Við teljum að einn erlendur aðili hafi farið frá landinu,“ segir Margeir, spurður út í flótta árásarmanns eða -manna frá landinu eftir atburðinn.

Og hvað býr þá að baki?

„Það er góð spurning og erfitt að segja til um það, ég bara veit það ekki,“ svarar aðstoðaryfirlögregluþjónninn, heiðarleikinn uppmálaður. „Þetta er eitthvert gengjastríð, þarna er verið að láta einhverja finna fyrir því vegna einhvers ósættis. Þarna er undanfari, það er alveg ljóst,“ segir hann.

Er þetta þá uppgjör á fíkniefnamarkaði landsins eða hvað?

„Já, jafnvel, en þetta getur vel verið annað, þarna geta menn verið að reyna að ná undir sig markaði í dyravörslu og öðru, eða sölu, en þetta er eitthvað sem við eigum eftir að skoða og ég fer varlega í að fullyrða eitthvað núna, við erum að skoða þetta og við vitum auðvitað ekki hvað er í gangi í þessu tiltekna máli,“ segir Margeir.

Þeir sem markaðnum stýra

Hann segir lögreglu eiga eftir að skoða aðdraganda þessa tiltekna máls betur. „En þessir gæjar, þeir sem eru að stjórna þessu eru þeir sem eru notaðir í ofbeldisverk í undirheimunum, það er það sem við erum að heyra, þeir eru notaðir til að fara í eitthvert fólk og beita ofbeldi. Svo koma einhverjir hópar og einstaklingar sem eru kannski ekkert tengdir undirheimunum. Kannski er einhver að vinna í dyravörslu og hann er fenginn til að koma með og hann fer með, það er alls konar vitleysa í þessu,“ segir Margeir íhugull.

Myndin tengist ekki málinu á fimmtudag er menn gripu til …
Myndin tengist ekki málinu á fimmtudag er menn gripu til eggvopna í miðbænum og tróðu þar illsakir. mbl.is/Ari

Stjórnendurnir séu þeir sem stýri markaðinum og undirheimunum heldur Margeir áfram og blaðamaður, sem sjálfur starfaði sem dyravörður í átta ár samhliða háskólanámi fyrir hundrað árum, spyr hvort menn séu virkilega að berjast um yfirráð á þeim markaði árið 2022. Algeng tímalaun fyrir dyravörslu árið 1995 voru 450 krónur og sótti fólk almennt í starfsgreinina væri það í námi eða þyrfti að vinna utan við níu til fimm.

„Það er þekkt aðferð erlendis að ef þú ætlar til dæmis að ná fíkniefnamarkaði þar sem fólk er að skemmta sér, hvar ertu að skemmta þér, þú ert í miðbænum, þar eru dyraverðir og hverjir eru best til þess fallnir að ná markaði og vera að dreifa? Það eru dyraverðirnir,“ segir Margeir og tekur um leið fram að hann ætli sér ekki að alhæfa neitt um stéttina.

Ekki allir að prenta út skotvopn

„Við lifum bara breytta tíma núna, það er klárt mál. Þetta er til dæmis þekkt aðferð hjá Albönum, þeir taka bara einhver svæði og eru með dyravörsluna og sjá um markaðinn þar, við vitum alveg af þessu,“ segir Margeir og hefur nokkuð til síns máls, Albanar náðu að gera Ósló í Noregi að einni af heróínhöfuðborgum Evrópu fyrir rúmum 40 árum.

„Þetta eru ekki einhverjir erlendir aðilar sem eru að koma hérna sérstaklega og það eru ekki allir að prenta út skotvopn úr þrívíddarprenturum. Mun frekar er verið að trufla söluna á einhverjum ákveðnum stað til að draga úr tekjum eigenda þar. Einn segir öðrum og svo flýgur fiskisagan,“ segir Margeir enn fremur.

Verður lögreglan þá með aukinn viðbúnað í miðbænum næstu helgi þegar þessi ragnarök eru boðuð?

„Við settum aukinn viðbúnað í gang strax þegar þetta mál [á fimmtudaginn] kom upp. Við aukum við sýnileika okkar og við erum að reyna að hafa hann töluverðan. Nú verður bara bætt í það, þetta er okkar hlutverk, að gæta borgaranna,“ heldur Margeir áfram.

Breyttir tímar

Horfum við á breytta heimsmynd, getum við ekki lengur trúað því að svona gerist ekki á Íslandi spyr blaðamaður og hefur spurt aðra gamalreynda lögregluþjóna fyrr, Runólf Þórhallsson og Geir Jón Þórisson.

„Já, hún er löngu farin,“ svarar Margeir aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Við höfum bent á þetta lengi en það hlustar enginn á okkur og þá vantar okkur bara stærri skóflu til að moka með. Það hefur ekki verið hlustað á það sem lögreglan segir í þessum efnum og nú er það komið á daginn. Þetta er það sem lögreglan hefur verið að benda á,“ segir hann.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra óskar eftir skilningi almennings á vaxandi ógn …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra óskar eftir skilningi almennings á vaxandi ógn í samfélaginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamaður hefur alið manninn í Noregi í tæp 13 ár. Þar er þrálát umræða um hvort lögregla eigi að ganga um vopnuð alla daga, með Glock-skammbyssur við mjöðm. Hvað segir Margeir um það?

„Umræðan hjá okkur núna tengist taser-byssunum [rafmagnsvopnum] og við höfum kallað eftir þeim í langan tíma. Það er fyrst og fremst til að verja okkur og geta varið samborgarana. Í dag höfum við bara kylfur og mace [varnarúða] og frá kylfu og mace er næsta stig bara skotvopn og við þurfum eitthvert millistig þarna, það er klárt mál,“ segir Margeir.

Mun það ganga?

„Já, nú er dómsmálaráðherra að leggja fram eitthvert frumvarp á Alþingi, það kemur bara í ljós hvernig það fer,“ heldur hann áfram.

Líður að lokum. Tengist árásin í Bankastræti skipulagðri glæpastarfsemi?

„Það væri ekki ábyrgt af mér að segja það hreint út en ég get sagt þér að það bendir allt til þess, við eigum bara eftir að skoða það, en við teljum það á þessu stigi,“ segir Margeir.

Lokaspurning. Er fólk að koma til Íslands sérstaklega í því augnamiði að fremja afbrot?

„Það hefur komið fyrir, við höfum séð það. Fullt af fólki úti í heimi er tilbúið að koma til Íslands og fá milljónkall eða eitthvað fyrir að gera eitthvað eða lumbra á einhverjum og fara svo til baka, það er ekki eins og þetta sé einhver vegalengd á milli landa,“ segir Margeir og kveðst aðspurður ekki vilja gera upp á milli þjóðerna.

„Það kom okkur rosalega mikið á óvart, til dæmis í Rauðagerðismálinu, hve mörg þjóðarbrot komu með einhverjum hætti að því máli og það er líka mjög sérstakt hvað fólk sem þekkist ekki erlendis er að vinna mikið saman á Íslandi. Það þekkist ekki að albanskir og litáískir afbrotamenn séu að vinna saman annars staðar en það erum við að horfa á á Íslandi, alla vega var það svoleiðis, svo getur það mynstur breyst þegar líður á, ég veit það ekki,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að lokum um breytta heimsmynd á Íslandi og hópárás í Bankastræti á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert