Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á alvarlegri árás sem átti sér stað á skemmtistaðnum Bankastræti Club undir miðnætti síðastliðinn fimmtudag miðar vel. Alls eru nú fimmtán í gæsluvarðhaldi vegna málsins og er sá yngsti 17 ára en sá elsti á fertugsaldri. Þá hafa 30 verið handtekin vegna rannsóknarinnar.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að tugir lögreglumanna hafi unnið sleitulaust að rannsókn málsins, auk þess sem embættið hafi jafnframt notið góðrar aðstoðar annarra lögregluembætta vegna málsins.
Þrír menn eru alvarlega særðir eftir stunguárás á Bankastræti Club í síðustu viku. Árásarmennirnir voru um 30 talsins, þótt þeir hafi haft sig mismikið í frammi. Sextán hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, ýmist í eina viku eða tvær en einum hefur nú verið sleppt. Fáheyrt er að svo margir sitji í gæsluvarðhaldi í einu og sama málinu.
Lögregla rannsakar einnig tilvik um hótanir og skemmdarverk á íbúðarhúsnæði síðastliðna viku sem talin eru tengjast árásinni en þau hafa skapað mikla hættu.
Lögreglan hefur aukið viðbúnað sinn vegna málsins og verður því haldið áfram, m.a. vegna þeirra hótana sem settar hafa verið fram og verið dreift á samfélagsmiðlum.
Þá skoðar lögreglan einnig hvernig myndefni af árásinni í miðborginni rataði í fjölmiðla og hvort starfsmaður hennar hafi átt þar hlut að máli. Í tilkynningu lögreglunnar segir að slíkt sé litið alvarlegum augum og er það til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.