Lekamálið í forgangi hjá héraðssaksóknara

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Árni Sæberg

Strax í morgun hóf embætti héraðssaksóknara rannsókn á meintum leka á gögnum frá lögreglunni sem tengjast rannsókn á árásinni á Bankastræti Club. Mbl.is og fleiri fjölmiðlar birtu í gær tvö myndbönd sem sýndu árásina úr öryggismyndavél, en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, sagði í dag að svo virtist sem myndbandinu hefði verið lekið frá lögreglunni. Er líklegt að myndbandið hafi verið tekið upp af skjá sem sýnir myndskeiðið í LÖKE, upplýsingakerfi lögreglunnar.

Embætti héraðssaksóknara sér um öll mál sem tengjast mögulegum brotum lögreglunnar og heyrir þetta mál þar undir. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir við mbl.is að strax í morgun hafi fullur kraftur verið settur í að rannsaka þennan meinta leka og að það sé í forgangi hjá embættinu. Segir hann málið rannsakað sem brot á þagnarskyldu lögreglumanna.

Þó áður hafi komið upp mál sem tengjast tilefnislausum uppflettingum eða gagnaleka frá lögreglunni, þá veit mbl.is ekki til þess að áður hafi gögn sem hafi jafn beina þýðingu við rannsókn sem enn er í fullum gangi, lekið frá lögreglunni. Er lekinn því litinn alvarlegum augum, en Grímur sagði einmitt í morgun að í skoðun sé hvort lekinn geti haft áhrif á rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert