„Þetta er bara áframhald af því sem við sáum um helgina. Þarna er verið að fara í þessa einstaklinga sem eru sakborningar í málinu í Bankastræti,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um eld- og reyksprengjur sem kastað var í hús í Fossvogi í nótt og þurfti slökkvilið að fara þangað í útkall í kjölfarið.
Enginn var handtekinn vegna málsins sem að sögn Margeirs er nú í hefðbundnum farvegi og rannsókn. „Það er bara verið að vinna í því,“ segir Margeir og kveðst aðspurður ekki viss um hve mikið tjón hafi hlotist af sprengjukastinu í nótt.
„En þessi atlaga er náttúrulega bara stórhættuleg, þarna er bensínsprengjum kastað og einhverjum reyksprengjum. Þarna er auðvitað bara verið að hrella fólk. Og þetta er bara það sem við höfum óttast og höfum bent á,“ ítrekar Margeir sem einnig kom inn á það
Nú líður að helgi og mun lögregla hafa töluverðan viðbúnað þar sem talið er að í annað uppgjör stefni. „Það verður aukinn viðbúnaður eins og Ásgeir Þór [Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri] kynnti og gaf það út að viðbúnaður yrði aukinn í miðbænum og það mun teygja sig út í öll hverfi,“ staðfestir Margeir.
Talið berst að stöðu og mönnun lögreglu. Bendir Margeir á að frá því um bankahrun hafi lögregla ekki náð sér á strik hvað mannafla snertir vegna niðurskurðar. Eftir sameiningu lögregluumdæma höfuðborgarsvæðisins hafi staðan orðið sú í kjölfar hrunsins að starfsfólk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið færra en lögreglan í Reykjavík ein og sér hafði á að skipa.
„Við höfum bara ekkert náð okkur upp úr þessari fækkun síðan. Oft er það svo að fólk er að bera saman þessa viðbragðsaðila, lögreglu, slökkvilið og þar fram eftir götunum. Við erum með eitthvað um 700 lögreglumenn á landsvísu en slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn eru 1.280 á landinu að mig minnir,“ segir Margeir, „og þeir eru samt að drukkna í verkefnum svo þú getur ímyndað þér stöðuna hjá okkur.“
Stendur ekki til að gera neina bragarbót þar á?
„Ja, nú ætla ég bara að vitna í þína eigin fyrirsögn, það hlustar enginn á okkur,“ segir Margeir og vísar í viðtal gærkvöldsins, bætir því við að menntuðum lögreglumönnum hafi ekki fjölgað. „Ég kann ekki skýringuna á því, líklega eru bara allt of fáir teknir inn, ríkislögreglustjóri á líklega betra með að svara því,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónninn að lokum.