Eiga eftir að meta stöðu starfsmannsins

Upptöku af myndskeiði af árásinni var lekið og rataði hún …
Upptöku af myndskeiði af árásinni var lekið og rataði hún í fjölmiðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vinnuskylda eins starfsmanna embættisins hefur verið afþökkuð á meðan rannsókn stendur,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirs­son, aðstoðarlög­reglu­stjóri lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, spurður hvort starfsmanni hjá embættinu hafi verið sagt upp í kjölfar þess að hann lak mynd­skeiði sem sýndi stunguárás­ina á Banka­stræti Club fyrr í mánuðinum.

Ólaf­ur Þór Hauks­son héraðssak­sókn­ari sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að starfsmaðurinn væri ekki við störf sem stendur og að rannsókn saksóknara á lekanum hefði lokið á föstudag. 

Ásgeir segir að staða starfsmannsins verði metin þegar embætti lögreglunnar berist niðurstöður rannsóknar héraðssaksóknara.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlög­reglu­stjóri lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlög­reglu­stjóri lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við [Ásgeir og Halla Bergþóra Björns­dótt­ir lög­reglu­stjóri] höfum ekki fengið nein gögn send um hverjar niðurstöður rannsóknarinnar eru svo við getum í raun og veru ekki tjáð okkur meira,“ segir Ásgeir.

Hann segir að um leið og embættinu berist niðurstaðan og upplýsingar um þann farveg sem málið er í, það er að segja til dæmis hvort málið verði fellt niður eða fari í ákæru, þá verði ný ákvörðun tekin. 

„Við þurfum að fá þær upplýsingar, hvert þeir fara með þetta mál og hvernig málið liggur fyrir áður en við getum tekið aðra ákvörðun,“ segir Ásgeir og bætir við að hann geri ráð fyrir að þær upplýsingar muni berast á næstu dögum. 

Óheppilegt og sorglegt

Héraðssaksóknari sagði fyrr í dag að ætl­un­ starfsmannsins hefði ekki verið að mynd­bandið birt­ist í fjöl­miðlum.

Inntur eftir því hversu mikil áhrif lekinn hefur á rannsókn lögreglu á stunguárásinni segir Ásgeir að rannsóknin hafi verið komin það vel á veg að ekki sé talið að lekinn hafi skaðað rannsókn málsins. 

„Engu að síður er það mjög óheppilegt og sorglegt að þetta hafi gerst,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka