Ekki liggur fyrir hvort ákæra verður gefin út á hendur starfsmanni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem lak upptökum úr eftirlitsmyndavélum á Bankastræti Club.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir rannsókn málsins m.a. lúta að 136. grein hegningarlaganna þar sem kveðið er á um eins árs fangelsisvist fyrir brot gegn þagnarskyldu í opinberu starfi.
Þar segir: „Opinber starfsmaður, sem segir frá nokkru, er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan, skal sæta … fangelsi allt að einu ári. Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, eða noti hann slíka vitneskju í því skyni, má beita fangelsi allt að 3 árum.“
Lekinn telst nú upplýstur og er starfsmaðurinn ekki við störf sem stendur. Málið hefur ekki verið sent saksóknara en hann tekur ákvörðun um það hvort ákæra verður gefin út.
„Í þeim tilvikum sem þetta hefur komið upp hefur verið ákært í svona máli,“ segir Ólafur Þór en tekur þó fram að enn sé verið að meta gögn málsins.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, staðfesti við mbl.is í dag að lögreglan teldi ekki að lekinn hefði skemmt fyrir rannsókninni.