Gæsluvarðhald yfir karlmanni sem liggur undir grun vegna stunguárásar á skemmtistaðnum Bankastræti Club hefur verið framlengt til 17. janúar.
Þetta staðfesti Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Maðurinn er sá eini sem enn er í varðhaldi vegna málsins en eins og frægt er voru á annan tug í gæsluvarðhaldi þegar mest lét. Fáheyrt er að svo margir sitji í gæsluvarðhaldi í einu og sama málinu.
Málið hefur vakið mikla athygli en það varðar stunguárás á Bankastræti Club í síðasta mánuði þar sem hópur grímuklæddra manna fór inn á skemmtistaðinn með miklu offorsi og réðst á þrjá menn.