Funda um stöðu forseta bæjarstjórnar eftir ákæru

Halla Björk Reynisdóttir, fyrir ofan, og Lára Halldóra Eiríksdóttir, sögðu …
Halla Björk Reynisdóttir, fyrir ofan, og Lára Halldóra Eiríksdóttir, sögðu að málið yrði til umræðu um helgina. L-listinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn mynda meirihluta í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um stöðu Heimis Arnar Árnasonar sem forseta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar. Lögreglan á Norðurlandi eystra gaf í gær út ákæru á hendur Heimi vegna hlutdeildar hans í uppsetningu hoppukastala sem tókst á loft með börn innanborðs.

Bæjarfulltrúar þegja þunnu hljóði

„Hann hlýtur að vera að fá ráðleggingar og annað slíkt um hvað sé rétt að gera. Það hefur engin ákvörðun verið tekin hingað til. En auðvitað eðlilegt að menn ræði þetta,“ segir Lára Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

Halla Björk Reynisdóttir, fulltrúi Bæjarlista Akureyrar, vildi ekki tjá sig um málið efnislega í samtali við mbl.is.

„Við ætlum að hittast og ræða málið á morgun eða hinn,“ sagði Halla sem vildi, eins og margir aðrir bæjarfulltrúar, sem minnst segja.

Hvorki Jana Salóme Ingibjargar-Jósepsdóttir bæjarfulltrúi Vinstri-grænna né Brynjólfur Ingvarsson óháður bæjarfulltrúi vildu tjá sig um málið þegar mbl.is náði tali af þeim.

Þá náðist ekki í Heimi Örn við vinnslu fréttarinnar.

Alls fimm ákærðir vegna málsins

Lögreglan á Norðurlandi eystra gaf út ákæru á hendur fimm mönnum vegna slyssins sem átti sér stað 1. júlí árið 2021. Hið minnsta fjögur börn hlutu merkjanlega áverka, tvö þeirra handleggsbrotnuðu, eitt braut herðablað og það fjórða mun berjast við hreyfihömlun alla sína ævi.

Rannsókn á tildrögum slyssins leiddi í ljós að kastalinn hafði ekki verið tryggilega festur við jörðina. Þannig hafi jarðfestingarnar verið of fáar og einingarnar festar saman með frönskum rennilás.

Samkvæmt frétt Rúv um málið er Heimir sóttur til saka fyrir að hafa vanrækt skyldur sínar fyrir hönd Knattspyrnufélags Akureyrar sem leigði kastalann af félaginu Perlunni ehf. en þrír forsvarsmenn þess félags eru ákærðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert