Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akureyri, segir minnihlutann í bænum vera sammála því að það sé á eigin siðferðislegri ábyrgð Heimis Arnars Árnasonar, sakbornings í hoppukastalamálinu, um það hvort hann eigi að stíga til hliðar sem forseti bæjarstjórnar vegna málsins.
Heimir er einn af þeim fimm einstaklingum sem eru ákærðir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi vegna hópslyssins sem varð af því að hoppukastali tók á loft á Akureyri sumarið 2021 með þeim afleiðingum að tíu börn slösuðust.
Fulltrúar meirihlutans sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem „fullu og óskoruðu trausti“ er lýst yfir Heimi.
Fulltrúar Framsóknarflokksins, Samfylkingar og VG úr minnihluta bæjarstjórnar á Akureyri funduðu í dag vegna ákærunnar.
„Okkar afstaða er sú að það er fyrst og fremst á hans eigin siðferðislegu ábyrgð að meta sína stöðu. Við erum sammála um það að það er eitthvað sem hann þarf að gera sjálfur og taka afstöðu til, hvað hann telur vera siðferðislega rétt í þessari stöðu,“ segir Jana Solóme í samtali við mbl.is.
Hún bætir við að út frá lagalegu sjónarmiði sé Heimir kjörgengur í bæjarstjórn þrátt fyrir ákæruna.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, vildi ekki tjá sig um málið og vísaði á oddvita flokkanna í bæjarstjórn og vildi ekki segja til um það hvort Heimir sé hæfur í starfi sínu.
„Ég get ekki svarað því. Ég starfa í hans umboði. Þú verður að spyrja bæjarfulltrúana að því,“ segir Ásthildur.