25 ákærðir og 15 milljóna bótakröfur

Hóp­ur grímu­klæddra manna fór inn á skemmti­staðinn Bankastræti Club með …
Hóp­ur grímu­klæddra manna fór inn á skemmti­staðinn Bankastræti Club með miklu offorsi og réðst á þrjá menn í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls eru 25 manns ákærðir vegna stunguárásarinnar á Bankastræti Club í nóvember.

Héraðssaksóknari gaf í dag út ákæru vegna málsins þar sem einn hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og tíu fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Ríkisútvarpið segir frá.

Enn í gæsluvarðhaldi

Mennirnir ellefu eru sagðir hafa ruðst grímuklæddir inn á Bankastræti Club og veist þar að þremur mönnum.

Einn þeirra sem er ákærður er sagður hafa stungið mennina þrjá með hníf, en sá hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald.

Hinir tíu veittust að þremenningunum með hnefahöggum og spörkum og einn þeirra er sagður hafa notað kylfu í árásinni.

Fjórtán til viðbótar eru ákærðir fyrir hlutdeild í árásinni með því að hafa ruðst grímuklæddir inn á skemmtistaðinn, verið inn í húsnæðinu á meðan árásinni stóð og verið þannig ógnun við mennina þrjá. Þannig hafi þeir veitt árásarmönnunum liðsinni í verki.

Mennirnir þrír sem ráðist var á krefjast þess að hópurinn verði dæmdur til að greiða þeim samtals 15 milljónir í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert