Segja orðalag ákærunnar óljóst

Hoppukastalinn Skrímslið var settur upp um miðjan júní 2021 á …
Hoppukastalinn Skrímslið var settur upp um miðjan júní 2021 á Akureyri, um tveimur vikum fyrir slysið. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Verjendur þeirra fimm sem ákærðir eru í hoppukastalamálinu svokallaða, þar sem hoppukastali tókst á loft með skelfilegum afleiðingum sumarið 2021, hafa krafist að ákæran gegn þeim skuli felld niður. Ástæðuna segja þeir „óljós sakarefni“. Rúv greinir frá.

Í lok síðasta árs gaf lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra út ákæru á hendur mönnunum fimm fyrir að hafa sýnt af sér í félagi aðgæsluleysi og vanrækslu þegar hoppukastalinn Skrímslið var tekinn í gagnið á Akureyri fyrir tæpum tveimur árum.

Saksóknari höfðaði málið vegna meiðsla fjögurra barna í slysinu, en alls slösuðust tíu börn, þar á meðal sex ára stúlka sem lá á gjörgæslu um tíma og berst enn við hreyfihömlun.

Vísaði til hryðjuverkamálsins

Allir sem ákærðir eru lýstu yfir sakleysi og fóru verjendur þeirra fram á frávísun ákærunnar við þinghald í gær. Vísaði verjandi eins þeirra til ákærunnar í hryðjuverkamálinu svokallaða, sem nýlega var vísað frá vegna óljósra sakarefna.

Í umfjöllun Rúv kemur orðalag ákærunnar svo óljóst að sakborningum hefði verið „ógerlegt að skilja með hvaða háttsemi eða athafnaleysi þeir hefðu brotið af sér“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka