Sex þeirra manna sem ákærðir eru í Bankastræti Club málinu svokallaða eru búnir að koma fyrir dómara í fjölmennasta dómsmáli sem héraðsdómur hefur tekið fyrir. Þar tóku þeir afstöðu til sakargifta. Búið er að gera hlé á þingfestingunni á meðan beðið er eftir næsta holli sakborninga.
Fimm mannanna eru ákærðir fyrir alvarlega líkamsárás en einn þeirra er ákærður fyrir tilraun til manndráps. Þrír mannanna sem ákærðir eru fyrir líkamsárás hafa játað verknaðarlýsinguna að hluta. Óljóst er hvað felst í því og mun það ekki koma í ljós hvað mennirnir eru að játa fyrr en greinagerð verður skilað.
Sá sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps játaði einnig verknaðarlýsingu að hluta en neitar heimfærslu refsiábyrgðar eins og henni er lýst í ákæru.
Málið er allsérstakt fyrir þær sakir hve margir sakborningar eru á svæðinu. Lögreglan er með nokkurn viðbúnað og nokkrir lögreglumenn í héraðsdómi. Lögregla gefur þó ekki upp hve margir lögreglumenn eru á svæðinu í heild.
Næsta holl mannanna verður tekið fyrir í framhaldinu.
Í ákæru eru ellefu sakborninga sagðir hafa ruðst grímuklæddir inn á Bankastræti Club og veist þar að þremur mönnum. Einn hinna ákærðu er sagður hafa stungið mennina þrjá með hníf en sá hefur verið í gæsluvarðhaldi. Er hann ákærður fyrir tilraun til manndráps.
Hinum tíu er gert að hafa ráðist að þremenningunum með hnefahöggum og spörkum og einn þeirra er sagður hafa notað kylfu í árásinni.
Fjórtán til viðbótar eru ákærðir fyrir hlutdeild í árásinni með því að hafa ruðst grímuklæddir inn á skemmtistaðinn, verið inn í húsnæðinu á meðan árásinni stóð og verið þannig ógnun við mennina þrjá. Þannig hafi þeir veitt árásarmönnunum liðsinni í verki.
Mennirnir þrír sem ráðist var á krefjast þess að hópurinn verði dæmdur til að greiða þeim samtals 15 milljónir í bætur