Skipt um meðdómara rétt fyrir aðalmeðferð

Réttað er yfir Magnúsi Aroni vegna manndráps í Barðavogi í …
Réttað er yfir Magnúsi Aroni vegna manndráps í Barðavogi í fyrra. mbl.is/Óttar

Skipta þurfti um meðdómara í Barðavogsmálinu svokallaða rétt fyrir aðalmeðferð þess sem hófst nú í morgun þar sem draga mátti hlutdrægni hans í efa. Helgaðist það af því að eiginkona meðdómarans er aðstoðarsaksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, en samstarfskona hennar fer með saksókn málsins. Úrskurður Landsréttar segir reyndar að hvorki dómarinn né eiginkona hans hafi neinna hagsmuna að gæta af meðferð málsins, en að horfa verði meðal annars til ásýndar dómsins og að hagsmunir sem lúti að trausti dómstóla í samfélaginu séu í húfi.

Í málinu er Magnús Aron Magnússon ákærður fyrir að hafa orðið manni að bana í Barðavogi í júní í fyrra með því að hafa ráðist á hann, fyrst inni á stigagangi heimils þeirra beggja og síðan fyrir utan húsið. Hófst aðalmeðferð málsins í morgun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Annar meðdómari áður talinn vanhæfur

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að dómsformaður hafi leitað til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur og óskað eftir að embættisdómari yrði fundinn til setu sem meðdómari. Fyrst var fundinn meðdómari sem saksóknari benti á að gæti verið vanhæfur og var fallist á að svo væri. Ekki kemur fram í dóminum hvaða dómari það hafi verið eða af hvaða ástæðum vanhæfið væri.

Fyrir rúmlega tveimur vikum, eða 14. mars hafi svo verið tilkynnt um skipan dómsins og að Björn Þorvaldsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefði tekið þar sæti sem meðdómari. Verjandi Magnúsar gerði athugasemd við það og vísaði til þess að Björn hefði áður verið saksóknari við embætti héraðssaksóknara. Þá væri eiginkona hans einnig starfsmaður embættisins, en hún væri aðstoðarsaksóknari á saksóknarsviði I innan embættisins. Er það sama svið og fer með málið.

Vísaði verjandinn til þess að ekki væru nema tvö ár síðan hann hætti störfum hjá embætti héraðssaksóknara og að hann hefði unnið með saksóknara málsins. Hann hefði því tengsl við embættið sem yrði að skoða með heildstæðum hætti. Vísaði hann til þess að samkvæmt lögum um sakamál væri dómari vanhæfur að fara með mál ef fyrir hendi væru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar væru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Héraðsdómur hafnaði því að slík atvik eða aðstæður væru fyrir hendi og hafnaði því kröfunni um að Björn skyldi víkja sæti. Var niðurstaðan kærð til Landsréttar sem komst að annarri niðurstöðu.

Björn Þorvaldsson, fyrrverandi saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara og núverandi héraðsdómari …
Björn Þorvaldsson, fyrrverandi saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara og núverandi héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Björn og eiginkona hans hafa engra hagsmuna að gæta...

Í úrskurði Landsréttar er aftur vísað til laga um sakamál sem og í stjórnarskrána þar sem kemur fram að öllum beri réttur til að fá úrlausn mála sinna með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þá er vísað í lögskýringar sem segi að dómarar þurfi að vera hlutlausir og að aðilar máls njóti jafnræðis að því leyti. Sækir þetta ákvæði fyrirmynd sína m.a. í mannréttindasáttmálann. Vísar Landsréttur jafnframt til fordæma þaðan þar sem komist var að niðurstöðu um brot þegar að maki dómara hafi farið fyrir opinberri rannsókn sem leiddi til ákæru sem kom svo fyrir dómarann. Einnig hafi það verið talið brot þegar bróðir dómara hafi á tímabili starfað í rannsóknarteymis máls sem svo var ákært í.

Jafnframt vísar Landsréttur til þess að ráðið verði af dómaframkvæmd að hagsmunatengsl maka dómara af einkaréttarlegum toga við aðila máls geti leitt til þess að með réttu megi draga óhlutdrægni dómara í efa.

Að öllu þessu sögðu er það hins vegar niðurstaða Landsréttar að Björn og eiginkona hans hafi engra hagsmuna að gæta af meðferð málsins. Það varði aðeins hreina opinbera hagsmuni en ekki einkahagsmuni þeirra. Það helgist meðal annars af því að atvik málsins hafi öll gerst eftir að Björn lét af störfum hjá embættinu. Þá sé ljóst að eiginkona hans hafi ekki haft aðkomu að meðferð málsins hjá saksóknaraembættinu. Verður óhlutdrægni hans því ekki dregin í efa vegna fyrri starfa eða vegna þess að hann starfaði á sínum tíma með saksóknara málsins.

...en hagsmunir í húfi sem lúta að trausti dómstóla

Landsréttur segir hins vegar að horfa þurfi til fleiri hluta. Þannig þurfi við skoðun á hinum hlutlæga mælikvarða verði að ákvarða, án tillits til gerða dómarans og eftir atvikum aðila tengdum honum, hvort fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem kunna að vekja vafa um óhlutdrægni hans. „Þeir hagsmunir sem eru í húfi lúta að því trausti sem dómstólar í lýðræðissamfélagi verða að vekja meðal almennings en af þeim sökum kann ásýnd dómsins ein að hafa þýðingu,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Þótt þau hafi ekki neinna hagsmuna að gæta af meðferð málsins „og það varði hreina opinbera hagsmuni, en ekki einkahagsmuni, verður eins og atvikum háttar talið að varnaraðili megi með réttu draga í efa hlutlægt séð þá óhlutdrægni dómara sem krafist er,“ segir að lokum í úrskurðinum og var Birni gert að víkja sæti í málinu.

Vísar Landsréttur meðal annars til þess að þótt að konan hafi samkvæmt upplýsingum frá embætti héraðssaksóknara ekki haft neina aðkomu að meðferð málsins, þá hafi ekki verið hægt að fullyrða að málið hafi ekki verið rætt á fundum þar sem eiginkonan var viðstödd. Er það niðurstaða Landsréttar þrátt fyrir að fundargerðir vikulegra funda saksóknasviðs I sýni að málið hafi ekki verið rætt á vikulegum stöðufundum sviðsins.

Lá niðurstaða Landsréttar ljós fyrir á föstudaginn, en úrskurðurinn var ekki birtur fyrr en í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka