Aðalmeðferð Barðavogsmálsins heldur áfram

Aðalmeðferð heldur áfram í Barðavogsmálinu í dag.
Aðalmeðferð heldur áfram í Barðavogsmálinu í dag. mbl.is/Óttar

Aðalmeðferð í hinu svokallaða Barðavogsmáli heldur áfram í Héraðsdómi í Reykjavíkur í dag kl. 9:30. Sérfræðingar, læknar og réttarmeinalæknir, sem lagt hafa fram vottorð eða mat í málinu, munu bera vitni og gefa skýrslu.

Atvikið átti sér stað 4. júní í fyrra en þá barst lögreglu tilkynning um andlát manns á fimmtugaldri við Barðavog um klukkan hálf átta það kvöld. Ákærði er tvítugur karlmaður, Magnús Aron Magnússon, sem sætt gæsluvarðhaldi síðan þá. Hinn látni hét Gylfi Bergmann Heimisson.

Hefur neitað sök

Magnús Aron neitaði sök í málinu þegar það var þingfest í ágúst. Andmælti hann verknaðarlýsingu í ákæru og kröfum systkina hins látna um bætur. Féllst hann á bótakröfu barna hans og föður. 

Magnús er ákærður fyrir manndráp. Er hann ákærður fyrir að hafa fyrir utan húsið í Barðavogi sparkað og kýlt Gylfa ítrekað. Haldið honum niðri og kýlt og sparkað í hann. Sam­kvæmt ákær­unni lést Gylfi af völd­um höfuðáverk­ans og áverka á and­liti sem tor­veldaði önd­un.

Magnús hefur verið metinn sakhæfur af geðlækni.

Aðalmeðferð hóst í gær. Þá bar Magnús Aron vitni og lýsti atvikinu. Sagði hann að bankað hefði verið á dyr hans um sjöleytið á laugardagskvöldinu. Þegar hann kom til dyra var Gylfi fyrir utan og smeygði hann sér inn um rifu á dyrunum að því er fram kemur í frétt Vísis.

Ultu niður tröppurnar

Sagðist Magnús hafa hrint honum út og átök hafist. Áflogunum hafi lokið þegar Gylfi lá meðvitundarlaus úti í grasinu. Þá hafi Magnús farið upp í íbúð, sótt síma og hringt á neyðarlínuna. Hann hafi svo skipt um peysu og beðið fyrir utan eftir lögreglu.

Magnús sagðist lítið hafa verið í samskiptum við Gylfa fyrir þetta. 

Magnús sagðist hafa verið illa sofinn og þreyttur þegar atvikið átti sér stað. Hann hafi ekki verið í góðu ástandi til að takast á við svona lagað. Þá hefur hann verið margsaga í vitnisburði sínum um atvikið og ýmist sagst hafa verið standandi eða liggjandi þegar hann rotaði Gylfa.

Ekki í góðu ástandi

Vísir greinir enn fremur frá því að Magnús hafi sagst ekki hafa verið í góðu ástandi til að vera yfirheyrður eftir að hann var handtekinn á staðnum. Þá segist hann ekki hafa verið upplýstur um að verið væri að yfirheyra hann þegar lögreglumenn ræddu við hann í gæsluvarðhaldsklefa. Hann hafi bara verið að spjalla við lögreglumennina því hann hafi kannast við annan þeirra.

Sagðist hann ekki hafa verið upplýstur um að hann þyrfti ekki að segja neitt né að hann ætti rétt á verjanda. Þá sagðist Magnús einnig að skýrslutaka af honum hafi verið skrifuð honum í óhag. Áréttaði þá saksóknari að svo væri ekki, hljóðupptaka hafi verið afrituð og henni ekki breytt. Magnús mótmælti því og sagði henni hafa verið breytt í Word.

Ákærði sagðist ekki hafa sagt rétt frá þegar hann var yfirheyrður í klefanum en upptaka af yfirheyrslunni var spiluð í réttarsalnum í gær. Í því sást hann leika árásina fyrir lögreglumönnunum og sýnt hvernig hann rotaði Gylfa.

Nágranni sá áflogin

Rúv greinir frá því að nágrannar Magnúsar og Gylfa í Barðavogi hefi einnig borið vitni í gær og lýstu því hvernig þau voru úti að grilla þegar þau tóku eftir áflogum tveggja manna. Kveðst eiginmaðurinn hafa séð annan þeirra sparka í hinn liggjandi. Báru hann og eiginkona hans vitni sem og sonur þeirra.

Sögðust þau öll hafa séð Magnús sparka í Gylfa, en hjónin sögðust hafa séð Magnús traðka á búk og höfði Gylfa. Sonurinn tók hins vegar ekki eftir því.

Hola í jörðinni

Lögreglumenn sem komu á vettvang og lögreglumenn sem fluttu Magnús á lögreglustöð og ræddu við hann báru einnig vitni. Sögðu þau hann hafa verið áberandi rólegan og þótti sumum hann of rólegan.

Í frétt Rúv kemur fram að lögreglukona frá tæknideild hafi sagt að ummerki við líkið gefa til kynna að miklu afli hafi verið beitt.

Lögreglukona sem kom á vettvang sagði holu hafa verið í grasinu þar sem höfuð mannsins lá og að blóðpollur hafi verið þar.

Lögreglumaður sem kom á vettvang kveðst hafa upplýst Magnús um réttarstöðu hans.

Sérfræðingur í lífsýnum innan tæknideildar lögreglu sagði niðurstöður DNA-greiningar sýna að lífsýni úr hinum látna hafi verið í meirihluta á fatnaði Magnúsar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert