Áföll og ofbeldi í æsku

Magnús Aron Magnússon þegar hann kom í réttarsal í Héraðsdómi …
Magnús Aron Magnússon þegar hann kom í réttarsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Arnþór

Geðlæknir sem gerði matsgerð á sakhæfi Magnúsar Arons Magnússonar, sem ákærður er fyrir manndráp í Barðavogi, segir að samkvæmt hennar skilningi hafi foreldrar ákærða komið í veg fyrir að hann fengi viðeigandi hjálp þegar hann var að alast upp. 

Skýrt væri að hann glímdi við ákveðinn vanda og sýndi merki um væga einhverfu. Hann hafi ekki fengið fullnægjandi hjálp vegna þess.

Lára Björgvinsdóttir geðlæknir sinnti matinu ásamt teymi geðlækna og sálfræðinga. Hún bar vitni fyrir dómi í dag en aðalmeðferð Barðavogsmálsins svokallaða hófst í gær. 

Einangraðist í faraldrinum

Foreldrar Magnúsar skildu þegar hann var unglingur og var það honum mikið áfall. Magnús bjó einn hjá móður sinni og hafði einangrast mikið. Þá segir Lára að samskipti hans við fjölskyldu hafi orðið mjög erfið þegar hann var unglingur.

„Hann ólst upp við erfiðar aðstæður. Hann átti erfitt í grunnskóla og eignaðist ekki vini. Eftir grunnskóla fer hann í skóla og reynir eitthvað að vinna. Það einhvernvegin gengur ekki upp. Það sem gerist síðan er að það kemur Covid. Þá einangrast hann enn meira. Hann vill ekki fá sprautur. Hann er hræddur og einangrar sig,“ segir Lára. 

Hún segir að um 15 til 16 ára aldur hafi samband hans við systur hans slitnað, eins og hún skildi það hafi systur hans slitið sambandi við hann. Þær hafi upplifað óöryggi í samskiptum við hann. Þá ræddi hún einnig um að Magnús hafi upplifað afbrýðisemi í garð barna systra sinna, að þau hefðu tekið hans stað í lífi þeirra. Var hann mjög náinn þeim sem barn. 

Lára segir einnig æsku ákærða hafa einkennst af áföllum og ofbeldi.

Hún lýsir því hvernig Magnús hafi verið undir miklu álagi kvöldið sem Gylfi Bergmann Heimisson lést. Móðir hans hafi verið á spítala, hún hafi fengið hjartaáfall. Hún segir Magnús ekki hafa skilið alvarleika ástandist og ofmetið aðstæður. Hann hafi haldið að móðir hans væri dauðvona, sem var ekki. 

Magnús hafi verið upp á móður sína kominn. Sú eina sem hann umgekkst og sú sem vann fyrir heimilinu. 

Sýnir einkenni persónuleikaröskunar

Spurð hvort teymi geðlækna hafi getað greint hann með persónuleikaröskun segir Lára nei. Hún segir að þau hafi ekki getað greint neina alvarlega geðsjúkdóma. Hann sýni hins vegar merki um persónuleikaröskun, en að hann uppfylli ekki öll einkenni til að fá greiningu. 

Þau hafi heldur ekki getað greint hann alveg með einhverfu, en að það væri klárt að hann væri með væga einhverfu. 

Sýnt merki um vilja til að læra

Spurð hvort refsing myndi skila árangri taldi Lára svo vera. Hann hafi nú þegar sýnt merki um að hann vilji læra og verða betri.

Lýsir hún því þannig að í fangelsinu á Hólmsheiði hafi hann leitað til ættingja og fangavarða til að fá leiðbeiningar um hvernig hann ætti að haga sér þegar eitthvað kæmi upp á. Einnig lýsti hún því hvernig hann hafi fyrst talað lágt og óskýrt í viðtölum við geðlækna, en þegar hann hafi verið beðinn um að breyta því, hafi hann gert það. 

Þá var hún einnig spurð hvort að hún teldi Magnús geta fengið þá aðstoð sem hann þarf innan veggja fangelsins. Hún sagðist ekki þekkja kerfið inn og út, en að til staðar væri geðheilsuteymi. Magnús hafi þegar fengið tíu tíma hjá sálfræðingi fyrir jól, og þó að hún hefði viljað sjá öðruvísi áherslur í þeim viðtölum, hafi þau hjálpað.

Lára segir teymið hafa merkt hjá honum iðrun, en sagði þó erfitt að túlka og meta fólk með einhverfu. Það tjáði tilfinningar sínar á annan hátt en aðrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert