„Með því ofsafyllsta sem sést“

Magnús Aron Magnússon í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Magnús Aron Magnússon í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Arnþór

Læknum sem gáfu skýrslu í Barðavogsmálinu svokallaða ber saman um að miklu afli þurfi að beita til að valda áverkum eins og þeim sem Gylfi Bergmann Heimisson hlaut. Gylfi lést af völdum heilablæðingar sem og áverka á andliti sem torvelduðu öndun.

Læknir sem bar vitni í málinu í morgun sagði að beitt hafi verið krafti á efsta stigi og þetta væri með því ofsafyllsta sem sést í árásum þar sem ekki er áhald notað.

Aðalmeðferð Barðavogsmálsins hélt áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þrír geðlæknar, sálfræðingur, heimilislæknir, réttarlæknir og læknir gáfu skýrslu og lögðu fram mat sitt. 

Magnús Aron Magnússon, 21 árs karlmaður, er ákærður fyrir manndráp. Atvikið varð hinn 4. júní á síðasta ári. 

Með skófar stimplað á höfuðið

Bæði réttarlæknirinn og læknirinn voru spurð út í einn tiltekinn áverka á höfði Gylfa sem leit skringilega út. Bar þeim saman um að hann væri stimplun af skósóla, sem gæfi til kynna að ákærði hafi sparkað eða traðkað á höfði hans. Þau töldu þó að ekki þyrfti tiltölulega mikið afl til að farið myndi stimplast hinn látna. 

Áverkar voru mestir á höfði, hálsi, herðum og efst á bringu. Þá voru áverkar á höndum hins látna sem læknar töldu bæði að gæfu til kynna að hann hafi reynt að bera hendurnar fyrir sig. 

Með 2,29 prómill í blóðinu

Þá var réttarlæknir spurð út í áfengismagn í blóði hins látna. Var það 2,29 prómill í blóði við andlát. Spurð hvort fólk myndi átta sig á því „einn, tveir og þrír“ sagði læknirinn að fólk væri mismunandi, en að hjá flestum myndi það sjást. 

Spurð hvort sú staðreynd að Gylfi hafi verið undir áhrifum þegar árásin varð sagði réttarlæknirinn að erfitt væri að segja. 

„Ef fólk er vant því að drekka get­ur það virkað ekk­ert sér­stak­lega ölvað. Það er ekki loku fyr­ir það skotið að það hafi áhrif á hans áverkni eða að hann hefði getað brugðist jafn ferks­lega við árás­inni ef hann hefði ekki verið ölvaður,“ sagði réttarlæknirinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka