Mögulega þróað með sér persónuleikaröskun

Barðavogsmál - Magnús Aron Magnússon hefur verið ákærður fyrir manndráp …
Barðavogsmál - Magnús Aron Magnússon hefur verið ákærður fyrir manndráp í Barðavogi 4. júlí í fyrra. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan, en aðalmeðferð málsins fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Arnþór

Sálfræðingur sem gerði mat á geðrænu ástandi og greind Magnúsar Arons Magnússonar, sem ákærður er fyrir að hafa banað Gylfa Bergmann Heimissyni við Barðavog í júní á síðasta ári, telur að ákærði sé á einhverfurófi eða hafi þróað með sér persónuleikaröskun. 

Þetta kom fram í vitnisburði Brynjars Emilssonar sálfræðings nú í dómsal í morgun. Aðalmeðferð málsins hófst í gær og heldur áfram í dag. 

Niðurstöður sínar byggði Brynjar á samtölum sínum við ákærða, geðlækna sem einnig mátu ástand hans og systur hans tvær. Magnús var metinn sakhæfur.

Þá mat hann greind ákærða eðlilega og að hann sýndi ekki merki um að þroskavandi væri til staðar 

Áföll í æsku

Telur hann að erfiðar aðstæður í æsku, áföll og uppeldi hafi valdið því að Magnús hafi mögulega þróað með sér persónuleikaröskun. Hann sýndi merki um dæmigerða og ódæmigerða einhverfu, en líka einkenni persónuleikaraskana. Telur hann að geðlæknar þurfi þó að meta hvort hann hafi mögulega verið í geðrofsástandi eða sýni merki um geðklofa, en slíkt myndi þurrka aðrar greiningar út af borðinu. Hann tók þó fram að hann hefði ekki séð mat geðlækna á ástandi Magnúsar. 

Sagði sálfræðingurinn að þau einkenni sem Magnús hafi sýnt, að draga sig úr félagslegum aðstæðum, geta verið einkenni einhverfu, en að það gætu líka verið merki um persónuleikaröskun. Þar spili líka uppeldisaðstæður hans inn í.

Fyrir miðri mynd er Arnþrúður Þórarinsdóttir saksónari. Baki í myndavélina …
Fyrir miðri mynd er Arnþrúður Þórarinsdóttir saksónari. Baki í myndavélina snýr Bjarni Hauksson, verjandi Magnúsar. mbl.is/Arnþór

Þyrfti að vinna úr áföllum

Verjandi Magnúsar, Bjarni Hauksson, spurði hvort Brynjar gæti lagt mat á það hvaða áhrif það myndi hafa á ákærða að sitja í fangelsi. Sagðist Brynjar ekki hafa verið beðinn um að svara því í mati sínu áður og að hann vildi helst ekki svara því. 

Spurði þá Bjarni hvort ekki væri ljóst að ákærði þyrfti mikla hjálp, sem ekki væru til staðar í fangelsum landsins. Brynjar sagðist geta verið sammála um að hann þyrfti að vinna úr bæði áföllum í æsku sem og þessu áfalli sem umrætt atvik hefur verið fyrir hann. Það væri þó ekki útilokað að hann gæti fengið aðstoð ef hann yrði sakfelldur því innleitt hefur verið geðteymi í fangelsin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert