Fer fram á þungan fangelsisdóm yfir Magnúsi

Magnús Aron Magnússon er ákærður fyrir að hafa orðið Gylfa …
Magnús Aron Magnússon er ákærður fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmann Heimissyni að bana í júní á síðasta ári. Samsett mynd

Ákæruvaldið fer fram á yfir þungan fangelsisdóm yfir Magnúsi Aroni Magnússyni fyrir manndráp af ásetningi, fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmann Heimissyni að bana hinn 4. júní á síðasta ári.

Þetta kom fram í málflutningi Arnþrúðar Þórðardóttur héraðssaksóknara, sem flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vísaði ákæruvaldið til fyrri dóma þar sem sakfellt hefur verið fyrir manndráp, dóma sem hljóða upp á 12 til 16 ára fangelsisvist. Yrði refsiramminn fyrir manndráp þannig fullnýttur.

Þá verði hann einnig dæmdur til að greiða rúmar fimm milljónir í sakarkostnað og bætur til aðstandenda.

Magnús hefur neitað sök samkvæmt ákæru en gengst við líkamsárás sem leiddi til dauða. Aðalmeðferð málsins lauk í dag.

„Langvinn og hrottafengin árás“

Ákæruvaldið telur að um manndráp af ásetningi sé að ræða. Gylfi lést af völd­um heila­blæðing­ar sem og áverka á and­liti sem tor­velduðu önd­un.

Arnþrúður segir ekki benda til þess að ákærði hafi í upphafi haft ásetning um að bana Gylfa. Ásetningur hafi hins vegar vaknað síðar í atburðarásinni. Þegar út var komið hafi ákærði talað um að eitthvað hafi kviknað innra með honum og að hann hafi viljað yfirbuga ógnina. Segir Arnþrúður að þá hafi hann haft ásetning um að myrða Gylfa.

„Þetta er langvinn og hrottafengin árás. Það er ekki hægt að segja neitt annað,“ segir Arnþrúður. 

Ekkert réttlæti árásina

Arnþrúður segir að það sé samhljóða niðurstaða í undir- og yfirmati sérfræðinga að ákærði sé sakhæfur og að refsing gæti borið árangur. Sækjandi telur að byggja eigi dóminn á mati sérfræðinga. Ákærði glími við geðrænan vanda en að hann hafi ekki verið í geðrofi þegar hann banaði Gylfa.

Strax á gæsluvarðhaldstímanum hafi ákærði sýnt framför í mannlegum samskiptum. Á þessum tíma hafi sérfræðingar hitt hann ítrekað og séð hvernig meðferðin á gæsluvarðhaldstímanum hafi borið árangur. 

Arnþrúður segir ákæruvaldið ekki draga úr því að ákærði glími við mikinn vanda sem hann þurfi að fá aðstoð við að vinna úr. „Það að honum hafi fundist óþægilegt að fá fólk í heimsókn. Það að hann hafi verið illa sofinn, það réttlætir ekki þessa árás,“ segir Arnþrúður.

Gengst við líkamsárás

Verjandi Magnúsar, Bjarni Hauksson, fór fram á að litið yrði til aðstæðna ákærða við ákvörðun refsingar. Ekki eigi að sakfella ákærða fyrir manndráp heldur líkamsárás sem leiddi til dauða.

„Ákærði ólst upp við erfiðar aðstæður og óreglu á heimilinu. Það er ljóst að hann fékk ekki þá aðstoð að hann hefði þurft að fá. Þá sé ljóst að markvisst hafi verið komið í veg fyrir að hann hafi fengið þá aðstoð hann þarf,“ segir Bjarni.

Ákærði gangist við því að hafa átt í áflogum við hinn látna, og að ásetningur um líkamsárás sé til staðar. Hins vegar hafi hann ekki ætlað sér að bana Gylfa. „Hann viðurkennir að bera ábyrgð á þessum verknaði. Hann telur sig bera ábyrgð á honum,“ segir Bjarni.

Verjandinn fór jafnframt fram á að bótakrafa til aðstandenda verði lækkuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert