Dómur í stóra kókaínmálinu á morgun

Frá aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu.
Frá aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsuppsaga í stóra kókaínmálinu svokallaða er komin á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur, en hún verður klukkan 10 á morgun.

Málið er stærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi, en í málinu eru fjórir menn ákærðir fyrir að hafa, ásamt óþekktum aðila, ætlað að flytja inn 99,25 kíló af kókaíni hingað til lands frá Bras­il­íu með viðkomu í Hollandi, þar sem fíkni­efn­in voru hald­lögð af yfir­völd­um. Efn­in voru fal­in í sjö trjá­drumb­um.  

Farið fram á hámarksrefsingu

Páll Jóns­son, Daði Björns­son, Jó­hann­es Páll Durr og Birg­ir Hall­dórs­son eru all­ir ákærðir fyr­ir skipu­lagða brot­a­starf­semi, til­raun til stór­fellds fíkni­efna­laga­brots og hafa haft um­tals­verðar óút­skýrðar tekj­ur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinn­ings af refsi­verðum brot­um. Eru upp­hæðirn­ar frá 13 og upp í 17 millj­ón­ir á hvern ein­stak­ling, sam­tals 63 millj­ón­ir.

Saksóknari fór fram á hámarksrefsingu í málinu, en Anna Barbara Andradóttir, saksóknari við embætti héraðssaksóknara, sagði í málflutningi sínum að það væri dómsins að meta refsingu, en hún vísaði til fyrri dóma, meðal annars 12 ára dóms í saltdreifaramálinu svokallaða.

Í því máli voru þrír menn fundn­ir sek­ir fyr­ir að hafa staðið að inn­flutn­ingi á salt­dreifara hingað til lands með Nor­rænu frá Hollandi. Í hon­um voru fald­ir 53 lítr­ar af am­feta­mín­vökva. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila fjar­lægðu þeir am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreif­ar­an­um og fram­leiddu allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu og dreif­ing­ar­skyni.

Tafir í aðalmeðferð og bann dómara

Á morgun verða fjórar vikur frá því að aðalmeðferð málsins lauk, en það vakti talsverða athygli hversu löng aðalmeðferðin var. Helgaðist það meðal annars af því að erfiðlega gekk að taka skýrslu af hollenskum lögreglumönnum og töfðust skýrslutökur um rúmlega sex vikur vegna þessa.

Þá vakti það athygli að dómari í málinu bannaði fjölmiðlum við upphaf aðalmeðferðar að greina frá því sem kæmi fram í skýrslutökum fyrr en þeim væri að fullu lokið. Eftir því sem málið tafðist kom fram aukin gagnrýni á þetta fyrirkomulag og endaði Vísir með að birta fréttir sínar úr dómsal áður en skýrslutaka kláraðist. Var það að lokum niðurstaða dómarans að aðhafast ekkert vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert