3,1 milljarðs tap í rekstri Árborgar

Frá Selfossi.
Frá Selfossi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta Árborgar var rúmlega 3,1 milljarðs króna tap á rekstri sveitarfélagsins árið 2022, en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir rúmlega tveggja milljarða króna tapi.

Ársreikningur sveitarfélagsins var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í dag. Sunnlenska.is greindi fyrst frá.

Fjármagnsgjöld vega þar þyngst en þau urðu 991 milljónum krónum umfram áætlun, „sem rekja má til hærri verðbólgu en áætlun gerði ráð fyrir,“ segir í tilkynningu á vef Árborgar.

Tekjur Árborgar á árinu 2022 námu tæplega 15,3 milljörðum króna, launakostnaður var rúmir 9 milljarðar króna og hækkun lífeyrisskuldbindinga nam rúmum 95 milljónum króna.

Annar rekstrarkostnaður voru rúmir 5,7 milljarðar króna og nemur framlegð af rekstri A- og B-hluta samtals 437 milljónum króna. Afskriftir voru 831 milljónir og var rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði neikvæð um 394 milljónir króna.

Fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og tekjuskattur námu um 2,8 milljörðum króna og var rekstrarniðurstaða ársins því neikvæð um 3,1 milljarð líkt og áður sagði.

Þá segir að skuldaviðmið hafi hækkað á árinu vegna fjárfestinga og aukinnar verðbólgu. Viðmiðið er nú 158,4% miðað við 138,5% árið áður.

Lækki launakostnað um 4%

Á miðvikudag var lögð fram aðgerðaáætlun í bæjarstjórn en áætlunin var unnin með ráðgjöfum KPMG. 

Meðal markmiða áætlunarinnar eru að skuldaviðmiði sveitarfélagsins verði komið undir 150% fyrir árið 2028, að launakostnaður lækki úr um 60% af skatttekjum árið 2022 í 56% af skatttekjum fyrir árið 2025 og þá hefur sveitarfélagið það markmið að selja byggingarlóðir og eignir fyrir 800 milljónir króna á árinu 2023. 

Þá hefur bæjarstjórn einnig gert samkomulag við innviðaráðherra um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit sem gildir til apríl árið 2025.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert