„Mér finnst eins og það vanti að horfa til þess hvað hann er ungur. Það eru til þyngri dómar, en þetta er þyngsta útgáfan. Hann er bara tvítugur þegar þetta gerist og það er aldur sem hefur verið horft í. Ég myndi segja að það sé ekki gert í þessari niðurstöðu,“ segir Bjarni Hauksson, verjandi Magnúsar Arons Magnússonar.
Magnús Aron hlaut 16 ára dóm fyrir manndráp af ásetningi, fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmann Heimissyni að bana í Barðavogi í júní á síðasta ári.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn í vikunni.
Bjarni segir í samtali við mbl.is að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort dóminum verði áfrýjað til Landsréttar eða ekki. Það sé eitthvað sem hann muni skoða ásamt umbjóðanda sínum á næstunni.